Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa tekið höndum saman um að markaðssetja íslenskt sjávarfang til erlendra ferðamanna hér á landi í þeim tilgangi að auka neyslu þeirra á sjávarafurðum á meðan á dvöl þeirra stendur. Herferðin kallast, Icelandic Nature – It Goes Great With Fish. Í auglýsingum sem beint er að ferðamönnum er boðið upp á einstaka matarpörun: íslenskar náttúruperlur og gómsæta sjávarrétti úr íslenskum fisk.

Niðustöður könnunar sem Maskína framkvæmdi fyrir Íslandsstofu leiddi í ljós að 79% ferðamanna neyta sjávarfangs á meðan þeir dveljast hér, en 39,5% svarenda borða íslenskan fisk einu sinni eða sjaldnar. Markmiðið er að lækka það hlutfall og fá íslenskan fisk oftar á disk ferðamanna á meðan á heimsókn þeirra stendur. Þá kemur jafnframt fram í könnuninni að um 44% ferðamanna gefa íslenskum mat háa einkun (8-10), en 79% gefa íslenskum fisk góða einkunn, þar af 36% sem gefa honum 10.

„Það er ánægjulegt að sjá hve mjög erlendir ferðamenn kunna að meta íslenskan fisk. Það staðfestir það sem við höfum lengi vitað, að við erum að bjóða frábæra vöru. Okkar markmið er fyrst og fremst að fá erlenda gesti til þess að borða fisk oftar, og að gera íslenskt sjávarfang að hluta af upplifun þeirra hér á landi,“ segir Pétur Þ. Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Herferðin keyrð á samfélagsmiðlum

Herferðin verður keyrð á samfélagsmiðlum næstu mánuðina. Á þeim tíma munu ferðalangar verða vör við ýmsar auglýsingar og skilaboð þar sem vakin er athygli á gæðum íslenskra sjávarafurða. Sýnt er fram á hversu auðvelt er að finna ljúffengan fisk, nánast hvar sem er á á landinu. Fjölmargir veitingastaðir um land allt sem bjóða upp á sjávarfang taka þátt í verkefninu. Staðirnir eru skráðir inn á Íslandskort með nákvæmri staðsetningu til að auðvelda gestum leiðina að íslenska fiskinum. Enginn ætti að fara af landi brott án þess að smakka.

Herferðin er liður í markaðsverkefninu Seafood from Iceland. Verkefnið miðar að því að auka virði og útflutningsverðmæti með því að auka vitund og bæta viðhorf markhóps gagnvart íslenskum sjávarafurðum. Um 30 íslensk sjávarútvegsfyrirtæki taka þátt í verkefninu sem rekið er af Íslandsstofu.

Sjá nánar á vefsíðu herferðarinnar www.seafoodfromiceland.com/great-with-fish