Arthur Bogason tók í vetur á ný við formennsku í Landssambandi smábátaeigenda eftir nokkurra ára hlé. Hann segir grásleppuvertíðina framundan verða erfiða.

Þessa dagana eru grásleppusjómenn að gera sig klára til veiða og sumir komnir af stað. Vertíðin hófst 23. mars og ríflega þrjátíu komnir með leyfi. Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, segir að það hafi þó legið fyrir í talsverðan tíma að framundan sé erfið vertíð.

„Við sjáum upp á það að þessi markaður sem varð til í Kína fyrir frosna grásleppu er einfaldlega lokaður. Eins og einhver orðaði það, þá er offramboð af búkum áður en vertíðin byrjar, þannig að eitt af því sem ráðuneytið féllst á var að menn mættu taka upp gamla hætti varðandi nýtingu á henni sem er að mega skera hana í sjó. Það mun auðvelda mörgum að eiga við þessa vertíð.”

Allt annað mál sé hvort þetta fyrirkomulag verði haft lengur en þessa vertíð.

„Auðvitað vonum við bara að þetta lagist og þessi fjandans drullupest fari nú að ganga niður þannig að lífið færist í eðlilegra horf. Síðan bætir það gráu ofan á svart að það er ekkert alltof bjart í sölumálum á hrognunum. Það er því eitt og annað sem leggst gegn grásleppukörlum á þessari vertíð.”

Furðu lostinn á ráðgjöfinni

Sjálfur segist hann furðu lostinn á því að mark sé tekið á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar varðandi grásleppuna.

„Í fyrra ráðlögðu þeir samdrátt lítillega en veiði á sóknareiningu jókst um ríflega 100 prósent. Ef þetta teljast nákvæm vísindi þá er ég hættur að skilja merkingu talaðs máls.“

Sömu sögu hefur Arthur raunar að segja af ýsuráðgjöfinni, en ýsukvóti margra er að klárast.

„Maður hefur af því fréttir, sem ég vona að verði staðfestar að í togararallinu hafi fengist hellingur af ýsu sem staðfestir þá það sem fiskimenn á stórum og litlum skipum hafa verið að segja. Við bindum miklar vonir við að það verði bætt við ýsuveiðiheimildir nú þegar.“

Hringl með línuívilnun

Undanfarið hafa smábátasjómenn einnig furðað sig á hringli með línuívilnun, en Fiskistofa er í tvígang búin að fella hana niður vegna þess að heildaraflaviðmiði var náð.

„Þetta helgast fyrst og fremst af því að það er búið að skerða línuívilnunina svo mikið undanfarin ár að menn lenda aftur og aftur upp að vegg. Til allrar hamingju lagaði ráðuneytið málið tímabundið fyrir stuttu og svo aftur núna. Við vonum innilega að þetta verði ekki tómt vesen þegar á líður.“

„Þetta er mjög atvinnuskapandi og ég hélt að á þessum tímum, með þetta pestarfár yfir okkur og bullandi atvinnuleysi víða, væri eftirsóknarvert að halda dauðahaldi í alla þætti sem skapa atvinnu.“

Sótt að smábátaútgerð

„Mér finnst sérkennilegt hvað verið að sækja að smábátaútgerðinni úr mörgum áttum. Það er ekki eitt, það er margt,“ segir hann og nefnir sem dæmi að „skyndilega er orðin gífurleg þörf að skipta sér af mönnunarmálum á smábátum. Uppi eru áform um að skikka báta að fimmtán metrum að vera með stýrimann um borð. Rökin eru að menn hafi verið að sofna undir stýri og strandað bátum. Það er alveg rétt, en eru menn með þessu að segja að ef þeir eru með stýrimenn um borð þá sofni þeir aldrei undir stýri? Þau mál þarf að nálgast öðruvísi. Ef menn leyfa sér að sofna undir stýri þá skiptir engu hvaða titil þeir bera.“

Hann segir fjölmargt annað brenna á smábátaútgeriðnni.

„Við höfum til dæmis lengi barist fyrir því að fá 48 sóknardaga lögfesta fyrir strandveiðikerfið, en ekki tekist hingað til. Öðruvísi mér áður brá. Á fyrsta ári kvótakerfisins 1984 vonu banndagarnir fyrir smábátaflotann 52 og þá gilti einu hvaða veiðarfæri menn voru að nota. Í þessu sambandi er viðeigandi að rifja upp að nú, 37 árum eftir lögfestingu kerfisins sem átti að „byggja upp þorskstofninn“ er úthlutun þorskveiðiheimilda fyrir yfirstandandi fiskveiðiár nánast nákvæmlega sú sama og í upphafi. Í mínum huga er löngu tímabært að viðurkenna að þessi „uppbygging“ beið skipbrot fyrir óralöngu síðan“.