Makríll veiðist eftir öllu Suðurlandinu en uppsjávarflotinn hefur þó mest allur fært sig að miðlínunni að Færeyjum því makríllinn suður af landinu er mjög síldarblandaður.
Við miðlínuna voru í gær Vestmannaeyjaskipin Ísleifur VE, Huginn VE og Álsey, Austfirðingarnir Börkur NK, Beitir NK, Hoffell SU, Jóna Eðvalds SF, Jón Kjartansson SU, Aðalsteinn Jónsson SU, Guðrún Þorkelsdóttir SU og Ásgrímur Halldórsson SF, Samherjaskipið Margrét EA og uppsjávarskip Brims, Venus NK og Svanur RE. Hinum megin línunnar dönsuðu færeysku uppsjávarskipin.
Heimaey VE hafði nýlega landað í Eyjum og Sigurður VE var að landa í Eyjum makríl sem veiddist á grunnunum suður af landinu. Hvort skip með um 800 tonn af síldarblönduðum makríl.
Álseyin var nýkomin að miðlínunni og var verið að undirbúa fyrsta kastið þegar rætt var við Hólmgeir Austfjörð stýrimann. Hann sagði að það hefði verið ágæt veiði þarna við miðlínuna og skipin að fá 200-250 tonn í holi. Flotinn er þarna á sama blettinum en Hólmgeir sagði að Gullbergið hefði verið fyrir sunnan Eyjar á svokallaðri Sneið og hefði hitt á einhvern makríl þar. „Það er bara besta mál ef það verður einhver fiskur þar, alla vega fyrir Eyjabátana og stutt að fara. Það er algjör snilld ef makríllinn fæst innan íslenskrar lögsögu og menn þurfi ekki að eyða fleiri sólarhringum í siglingar,“ segir Hólmgeir.

Vont að fá hrygningarsíld
Björn Brimar Hákonarson, framleiðslustjóri hjá Ísfélaginu, segir það vænan makríl sem Heimaey og Sigurður hafi landað.
„Aflinn var samt síldarblandaður og við erum að reyna að forðast síldina. Íslenska síldin er að hrygna einmitt um þetta leyti og er ekki góð til vinnslu. Þess vegna eru flestir komnir þarna austur undir miðlínu. Engu að síður er einn bátur frá Ísfélaginu og annar frá Vinnslustöðinni, Heimaey og Gullberg, að reyna fyrir sér hérna djúpt suður af Eyjum. En við verðum að forðast síldina því við fáum ekki nýjan síldarkvóta fyrr en í september og eigum lítið af síld fyrir meðafla. Auk þess er ekkert eftirsóknarvert að fá síld núna í því ástandi sem hún er,“ segir Björn.

Hann segir að hlutfall síldar í makrílholunum fyrir sunnan land hafi verið allt frá engu og upp í 80% af aflanum. Hrygningarsíldin hafi farið í fiskimjöl og lýsi. Þess vegna sé verið að reyna áfram að veiða makríl fyrir sunnan land.
Björn minnir á að svona hafi makrílgöngurnar verið áður fyrr en síðustu ár hafi menn þurft að sækja makrílinn í Síldarsmugunni. Það sé því mjög jákvætt að hann sé kominn inn í íslenska lögsöguna. Það skili sér í sparnaði í útgerð skipanna og skili jafnframt betri afurðum í land.
„Þetta er mjög góður makríll sem við höfum fengið til vinnslu úr þessum tveimur bátum. Við hausum hann og slógdrögum og heilfrystum hann líka. Vinnslan okkar á Þórshöfn hefur svo sérhæft sig í flökun. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessari makrílvertíð og því að makríll sé farinn að ganga inn í íslenska lögsögu. Vonandi helst það þannig eitthvað fram eftir sumri.“