Talsverður kippur kom í veiðar á norsk-íslenskri síld úti fyrir austanverðu landinu og kvóti sumra skipa að klárast. Síldin er væn og góð til vinnslu en hver einasti fiskur fer til manneldis. Þess vegna koma skipin með tiltölulega hóflega skammta að landi og landað er úr þeim í samræmi við vinnslugetuna. Þetta er meðal efnis í Fiskifréttum sem komu út í morgun.
Skip Vinnslustöðvarinnar, Sighvatur Bjarnason VE og Huginn VE, komu til Eyja með sína skammta í byrjun vikunnar, hvort skip með um 900 tonn. Strax var byrjað að landa úr Hugin og áætlað var að byrja að landa úr Sighvati Bjarnasyni núna í kvöld. Það er því talsverð löndunarbið en það er enginn asi á mönnum því kvóti Vinnslustöðvarskipanna, sem var í kringum 6 þúsund tonn, er við það að klárast. Ísfélagið á þó enn talsverðan kvóta eftir enda með mun stærri úthlutun í norsk-íslensku síldinni.
Ólafur Óskar Stefánsson, skipstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE, segir síldina fallega. Meðalþyngdin er í kringum 400 grömm. Í þessum síðasta túr var um 480 tonnum dælt yfir í Hugin sem í kjölfarið var siglt rakleiðis til Eyja til löndunar. „Við fengum svo einhver 220 tonn úr Ásgrími Halldórssyni sem hafði fengið alltof mikið,“ segir Ólafur Óskar. Þannig er fallegt samstarf á miðunum milli ótengdra útgerða.
Hver sporður til manneldis
„Það fer hver einasti sporður í vinnslu til manneldis. Það er því landað jafnóðum upp úr skipunum í samræmi við vinnslugetuna. Almennt má segja að þetta hafi gengið vel hjá okkur. Gullbergið fer út í kvöld [mánudagskvöld, innsk. blm.] til þess að ná restinni af kvótanum. Það er búið að vera þægilegt að sækja þetta og við vorum komnir talsvert sunnarlega undir lokin. Það var um 20 tíma stím í land í þessum síðasta túr. En nú er bara pása framundan hjá okkur líklega fram til 20. október þegar við byrjum að veiða íslensku síldina,“ segir Ólafur Óskar.