Ísfisktogarinn Bergur VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum á laugardaginn og systurskipið Vestmannaey VE landaði þar einnig fullfermi í gær. Bæði skip lögðu áherslu á ýsuveiði. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, lét vel af túrnum.

„Við tókum aflann á Víkinni og þetta var mest ýsa en töluvert af þorski með. Við fylltum skipið á rétt rúmum sólarhring. Að löndun lokinni var strax haldið á Höfðann og þar erum við að reyna við ýsu,” sagði Jón.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, lét einnig vel af veiðinni.

„Við byrjuðum á Víkinni en síðan var haldið á Síðugrunn og Öræfagrunn. Loks var endað á Ingólfshöfða í fínustu veiði. Þetta var góður túr í góðu veðri en þó fengum við kaldaskít undir lokin. Við reyndum að blanda aflann vel og það var mest af ýsu í honum. Menn vilja spara þorskinn. Haldið verður til veiða á ný á fimmtudaginn,” sagði Birgir Þór.