Hafrannsóknastofnun hefur birt tilkynningu á vef sínum um að hækkun loðnuráðgjafar sé væntanleg næstu daga.

„Endalegar niðurstöður leiðangursins liggja ekki fyrir og ný veiðiráðgjöf verður því vart tilbúin fyrr en í byrjun næstu viku,“ segir í tilkynningunni. „Í ljósi þess að núna er langt liðið á loðnuvertíðina vill Hafrannsóknastofnun upplýsa að umtalsvert magn af hrygningarloðnu mældist á landgrunninu norður af Húnaflóa sem var ekki komið á mælisvæðið þegar fyrri mæling fór fram. Ljóst er að mælingar undanfarinna daga munu leiða til hækkunar á tillögum um hámarksafla á loðnuvertíðinni 2022/2023. Varlega áætlað má gera ráð fyrir yfir 100 þúsund tonna hækkun ráðlags hámarksafla.“

Hvetur til varúðar

Stofnunin hvetur sérstaklega til þess að afli sem nemur þessari viðbótarráðgjöf verði veiddur sem mest úti fyrir Húnaflóa:

„Loðnan sem mældist úti fyrir Húnaflóa var 3 – 4 ára loðna sem komin var tiltölulega nálægt hrygningu, með tæplega 16% hrognafyllingu syðst en tæp 12% utar. Það er mat Hafrannsóknastofnunar að þessi loðna muni líklegast hrygna á þessum slóðum. Út frá varúðarðarsjónarmiðum hvetur stofnunin til þess að afli sem nemur viðbótarráðgjöf verði veiddur sem mest á þeim slóðum. Með því að ganga ekki of nærri þeirri loðnu sem hrygnir við vestur- og suðurströnd landsins væri verið að leitast við að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika innan stofnsins og minnka möguleg neikvæð áhrif veiða á nýliðun. Með öðrum orðum, mælst er til þess að loðnuveiðarnar endurspegli á einhvern hátt dreifingu stofnsins eftir hrygningarsvæðum.“

Leiðangurinn

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson sinnti þessum rannsóknum dagana 12.-21. febrúar.

„Yfirferð rannsóknarskipa í mælingum á stærð loðnustofnsins í janúar síðast liðnum norðvestan við landið var takmörkuð vegna hafíss á svæðinu. Við kynningu á breyttri veiðráðgjöf í kjölfar þess leiðangurs, boðaði Hafrannsóknastofnunin að farið yrði til mælinga á því svæði seinna með það fyrir augum að kanna betur norðvesturmið með tilliti til þess hvort ómældur stofnhluti hafi gengið inn á svæðið.“