Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir sveitarfélagið sérlega viðkvæmt fyrir sveiflum í veiðum á loðnu og makríl.

Þetta og fleira, meðal annars hafnarframkvæmdir vegna mikillar uppbyggingar á vegum Ísfélagsins á Þórshöfn, gerði Björn að umtalsefni í sérstökum pistli sveitarstjóra á fundi sveitarstjórnar í gær. Sagði hann að útsvarstekjur Langanesbyggðar væru alltaf sveiflukenndar yfir árið.

„Þar ræður hvað mestu hvernig vertíð þróast, hvort loðna eða makríll veiðist og þar af leiðandi hver umsvifin eru í samfélaginu og áhyggjuefni ef ekki verður af þeim veiðum á núverandi vetri. Það er ekki þetta jafna flæði tekna eins og hjá sveitarfélögum sem hafa fleiri en eina meginstoð í atvinnulífinu,“ sagði Björn.

Mikilvægar hafnarframkvæmdir en geta hafnarsjóð takmörkuð

Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langnesbyggðar. Mynd/Aðsend
Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langnesbyggðar. Mynd/Aðsend

Sagði sveitarstjórinn að þær framkvæmdir sem nú hefur verið lagt í við höfnina - og tengjast Ísfélaginu sem fyrr segir - muni styrkja starfsemina við höfnina þó að nær ógerlegt sé að setja tölur á það.

„Samkvæmt samtölum við þá sem gera hér út hafa þeir langflestir verið hlynntir þessum framkvæmdum. En – í þessu sambandi verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti með þátttöku í þessum framkvæmdum. Þar ræður ekki vilji okkar heldur geta hafnarsjóðs. Höfnin er og verður í fyrirsjáanlegri framtíð lífæð okkar,“ sagði sveitarstjórinn og benti síðan á það sé ekki aðeins Langanesbyggð sem búi við sveiflukenndan fjárhag. Íslenskt efnahagslíf hafi verið sveiflukennt.

Rifjaði upp hrunið í síldveiðum 1968

„Stundum er íslenskt efnahagslíf reyndar oft í svipaðri stöðu og var á árum áður þegar t.d. síldin brást 1968 sem setti allt á hliðina hér og fáir eða engir sem hér eru inni nema ég, muna þær hamfarir sem riðu þá yfir samfélagið. Mín skoðun er sú, að við verðum að hugsa leiðir til að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf og Kistan var t.a.m. einn þáttur í því. Jafnvægi í tekjum er eftirsóknarvert markmið og að sjá betur fyrir hverjar tekjur og útgjöld í takt við það geta orðið. Við búum við það til dæmis núna að við sjáum staðgreiðsluna sveiflast frá mánuði til mánaðar vegna loðnu brests og minni tekna fólks,“ sagði Björn.

Ríkið setji meira fé í loðnuleit

Á fundi sínum í gær bókaði sveitastjórnin samhljóða - eins og fleiri sveitarstjórnir hafa þegar gert - stuðning við bókun stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga um eflingu Hafrannsóknastofnunar til að takast á við loðnuleit:

„Langanesbyggð tekur undir bókun stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem kveður á um að leggja þurfi áherslu á að Hafrannsóknarstofnun verði fjárhagslega undir það búin að fara í öflugar bergmálsmælingar í byrjun næsta árs til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort ekki sé hægt að heimila þessar þjóðhagslega mikilvægu veiðar. Það er skýlaus krafa sjávarbyggða á Íslandi að ríkisvaldið sjái til þess að jafn mikilvæg stofnun og Hafrannsóknarstofnun sé fullfjármögnuð og gert kleift að halda úti öflugum rannsóknum á fiskistofnum þjóðarinnar til að hægt sé að tryggja sjálfbærar veiðar sem skipta sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf.“