„Við erum bara að byrja að skoða Grænlandssundið núna sem við náðum ekki að mæla í fyrri mælingum út af ís. Hann hefur hopað talsvert og við getum skoðað þetta betur núna. Við erum búnir að sjá eitthvað af loðnu hérna meðfram kantinum en hún er blönduð ungloðnu, ókynþroska. Við erum ekkert komnir með meiri mynd á þetta en það. Höfum engan mælikvarða á magn ennþá,“ segir Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, en hann hefur stýrt leiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar. Fiskifréttir ræddu við hann í gær, miðvikudag.

„Við erum búnir að taka tvö sýni og það var mest þriggja ára loðna í því sem er aðeins athyglisvert af því hún er svo mikið ókynþroska. Það er svo stór hluti af henni sem er ókynþroska þó hún sé orðin þriggja ára, sem bendir til þess að sú loðna ætli ekki að hrygna fyrr en á næsta ári sem fjögurra ára loðna.“

Birkir segir að haldið verði áfram í nokkra daga.

„Við munum skoða alla vega hérna út af Vestfjörðunum og verður þá metið hversu langt austur við förum. Það eru ágætar veðurhorfur þessa dagana að mestu, þó það sé einhver hvellur framundan eins og gengur.“

Loðnuskipin voru í gær búin að landa um 18.000 tonnum af loðnu það sem af er vertíðinni. Hafrannsóknastofnun hækkaði ráðgjöf sína upp í 275.000 tonn eftir aðra yfirferð, en nú bíða sjómenn þess hvort þessi síðasta yfirferð gefi tilefni til að hækka ráðgjöfina enn frekar.

Stutt í Japansfrystingu

Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki NK, segir að töluvert sé að sjá af loðnu vestan við Hrollaugseyjar. Skipið fékk þar tæplega þúsund tonn af loðnu í þremur köstum, samkvæmt frásögn Síldarvinnslunnar.

„Það er 40% kelling í aflanum og hrognafyllingin er um 14%. Farið er að frysta á Japan þegar hrognafyllingin er 15% og því er stutt í Japansloðnuna. Vonandi fæst slík loðna í næsta túr. Mér líst mjög vel á framhaldið, ekki síst vegna þess að það verður friður á miðunum næstu daga. Menn eru orðnir býsna þreyttir á brælunum sem hafa herjað á okkur að undanförnu,“ segir Hjörvar.