Í hagspá Landsbanka Íslands er gert ráð fyrir 0,5% vexti útflutnings á þessu ári. Þar kemur fram að hlutur hefðbundins sjávarútvegs í landsframleiðslu hefur farið minnkandi í takt við fjölbreyttari útflutning en áður var. Sjávarútvegur stendur nú að baki u.þ.b. 6% landsframleiðslunnar en var 13% fyrir tæpum 30 árum. Þetta kom fram í máli Unu Jónsdóttur, aðalhagfræðings Landsbanka Íslands, á sjávarútvegsráðstefnunni í síðustu viku. Þar benti hún á að Landsbankinn spái 2,5% hagvexti á næsta ári en sá hagvöxtur gæti hæglega orðið 2,8- 3,3% með „dæmigerðri” loðnuvertíð.

Una Jónsdóttir.
Una Jónsdóttir.

Una benti á að það sem einkenndi sjávarútveginn væru miklar sveiflur á milli ára og þar eigi loðnan stærstan hlut að máli. Loðnuaflinn var t.a.m. 1.300.000 tonn árið 1997, en enginn árin 2008, 2019 og 2020. Í hagspá Landsbankans 2024-2027 er ekki gert ráð fyrir loðnuveiði. Hún benti á að um þetta ríki þó mikil óvissa og sérstaklega lengra fram í tímann. Sú sviðsmynd var þó dregin upp að ef til hóflegrar loðnuvertíðar kæmi myndi það færa umtalsverðan hagvöxt inn í landið. Bankinn spáir 2,3% hagvexti á næsta ári en hann gæti hæglega orðið á bilinu 2,8 til 3,3% miðað við dæmigerða loðnuvertíð.

„Þetta sýnir okkur að þótt þáttur sjávarútvegs sé orðinn lítill af landsframleiðslu í heild getur hann verið mjög mikill í hagvexti, þ.e.a.s. breytingu á landsframleiðslu milli ára.“

Er 0,5-1% viðbótarhagvöxtur smáræði?

Þetta gaf Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, tilefni til hugleiðinga á samfélagsmiðlum. „Nú stendur einmitt fyrir dyrum skipulagning loðnuleitar. Engir fjármunir eru til reiðu hjá Hafrannsóknastofnun til þess að fara út að leita í desember og fjármagn til leitar í janúar er af skornum skammti. Ætli vanti ekki upp á um 100 milljónir króna eða svo, ef vel ætti að vera. Þetta er árlegur fjárskortur, en hann er enn alvarlegri þegar engin loðna hefur enn fundist,“ segir Heiðrún Lind. Hún spyr í framhaldinu hvort stjórnvöld telji 0,5-1% viðbótarhagvöxt sem gæti orðið ef loðna finnst eitthvert smáræði sem engu máli skipti. „Ég hef raunverulegan áhuga á að vita svarið.“