Enginn verulegur kraftur er í veiðum á norsk-íslenskri síld austur af landinu þessa dagana en nóg veiðist þó hjá uppsjávarskipum Brims til þess að halda vinnslunni gangandi á Vopnafirði. Kristján Þorvarðarson, skipstjóri á Venus NS 150, var að taka sitt fyrsta tog á miðunum sem eru talsvert austur af landinu. Hann segir erfiðara að eiga við síldina núna en oft áður. Það bætist ofan á loðnubrest og laka makrílvertíð.
Stór hluti uppsjávarflotans, þar á meðal Sigurður VE, Jóna Eðvalds SF, Aðalsteinn Jónsson SU, Ásgrímur Halldórsson SF og Börkur NK, var við veiðar talsvert austur af Vopnafirði. Víkingur AK var á leið inn til Vopnafjarðar með um 7-8 hundruð tonn af síld sem er skammturinn sem vinnslan vill fá.
„Miðað við undanfarin ár þarf að hafa meira fyrir þessu þetta árið. Ætli það sé ekki bara eitthvað minna af síld en svo gæti hún haldið sig annars staðar. Menn hafa þó verið að skrapa upp úr þessum túrum hérna en það þarf að hafa meira fyrir því,“ segir Kristján.
Vonbrigði með uppsjávarveiðarnar
Svo virðist sem síldin sé á talverðu flakki. Þegar veiðarnar hófust fengu skipin ágæt hol í Seyðisfjarðardýpi og Héraðsflóanum. Þar fékkst lengst af ágætur afli í fyrra en nú þarf að sækja lengra út. „Það finnst blettur og tekið eitt tog og svo þarf að kíkja aftur í kringum sig. Þannig er nú staðan á þessu núna.“
Uppsjávarskip Brims eru ekki í veiðisamstarfi og fiska hvert fyrir sig í vinnsluna á Vopnafirði. Kristján segir uppsjávarveiðarnar oft hafa gengið betur en á þessu ári. Fyrir það fyrsta var enginn loðnukvóti gefinn út og þótt makrílveiðarnar hafi farið ágætlega af stað innan íslensku lögsögunnar datt botninn fljótt úr þeim. Uppsjávarskip Brims náðu ekki sínum kvóta í makríl en ágætlega gekk á kolmunna sem fer allur til mjöl- og lýsisframleiðslu. „Makríllinn var erfiður og það má eiginlega bara þakka fyrir það sem veiddist innan íslensku lög[1]sögunnar. Í júlí og fram í ágúst vorum við á góðu skriði með makrílinn en svo datt þetta niður,“ segir Kristján.