Það er samdóma álit viðmælenda Fiskifrétta að loðnuvertíð sé því sem næst lokið nú þegar enn eru óveidd tæp 180 þúsund tonn af útgefnum kvóta. Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu höfðu veiðst 509 þúsund tonn þann 17. mars síðastliðinn og lítið hefur verið um landanir síðustu daga.

Loðnuflotinn var nánast allur sunnan við Reykjanes í gær en Jóna Eðvalds SH, Venus NS og Hákon EA leituðu loðnu vestur af Snæfellsnesi. Sigurður Jóhannesson stýrimaður var í brúnni á Beiti NK og sagði fátt í fréttum.

„Það er engin veiði og mjög lítið verið marga undanfarna daga. Ég veit ekki af neinum sem hefur kastað í dag,“ segir Sigurður.

Hann segir að menn lifi í voninni um að eitthvað dúkki upp af loðnu en líkurnar á því fari þverrandi. Loðnuflotinn var úti af Þorlákshöfn og vestur af Reykjanesi og sömu sögu vera að segja af þeim öllum. Lítil sem engin veiði en blíðuveður.

„Ég held að flestir séu komnir á þá skoðun að loðnuvertíð sé lokið. Það þarf ekki heldur annað en að kíkja á dagatalið. Þetta hefur oftast nær verið búið á þessum tíma.“

Börkur fékk um 400 tonn fyrir fimm dögum og var ennþá með þann afla í lestinni. Það litla sem veiddist á þriðjudag var hrygnd loðna.

Ekki lóðningar eins og við erum vanir

Jóhannes Danner skipstjóri var í brúnni á Jónu Eðvalds SH. „Þetta er bara búið. Menn eru að leita út um allt að einhverju og enginn að veiða neitt. Einhverjir tveir eða þrír bátar fengu upp í 100 tonna köst rétt austan við Þorlákshöfn en annars voru þetta bara 20-50 tonna köst. Við köstuðum bara einu sinni með lélegum árangri. Þetta er bara í andaslitrunum eins og alltaf um þetta leyti árs,“ segir Jóhannes.

Þeir héldu síðan vestur og voru fyrir sunnan Snæfellsnesið í gær að leita ásamt Venusi NS og Hákoni EA sem var reyndar á leið inn til löndunar. Jóhannes sagði að það væru um 20 skip fyrir sunnan á einum bletti og þar væri erfitt að athafna sig.

„Ég held að menn séu orðnir úrkola vonar um vestangöngu. Menn eru bara að bíða eftir því að þetta verði slegið af. Tilkostnaðurinn er of mikill miðað við árangurinn því það kostar sitt að halda flotanum úti ef ekkert fæst upp í það.“

Eftir fyrstu vikuna í apríl má búast við að einhver uppsjávarskipanna fari á kolmunnaveiðar við Færeyjar. Jóna Eðvalds fer þó ekkert af stað aftur fyrr en makrílveiðar hefjast, líklegast í endaðan júní.

Jóhannes hefur verið á fleiri en einni loðnuvertíð og segir að það sem einkenni þessa vertíð séu stöðugar brælur og illviðri. Hann man ekki eftir öðru eins. Þrátt fyrir allt sé þetta fínasta vertíð sem nú er á lokametrunum.

„Ef það hefði fengist betri tíð þá hefði kvótinn sennilega klárast. Þetta kom samt mjög furðulega að og þetta voru ekki lóðningar eins og við erum vanir að fá. Það var aldrei neinn massi í þessu og það þurfti að hafa fyrir því að lemja í skipin. Þetta kom svona í mörgum spýjum á trollinu líka og engin næturveiði. Tónninn var því eiginlega gefinn strax í upphafi vertíðar finnst manni svona eftir á að hygga. Fyrir vikið var meira fyrir þessu haft en oft áður,“ segir Jóhannes.