Línuskipin Páll Jónsson GK og Sighvatur GK lönduðu bæði í Grindavík í síðasta sinn fyrir sumarstopp í gær og það gerði einnig togarinn Jóhanna Gísladóttir GK.

Þetta kemur fram á vefSíldarvinnslunnar. Þar segir að skip Vísis muni ekki halda á ný til veiða fyrr en komið verði fram í ágúst. Rætt er við skipstjórana sem segja nú komið kærkomið sumarfrí fyrir áhafnirnar.

„Við vorum að veiðum suður af Ingólfshöfða þannig að stímið var býsna langt. Lagnirnar voru fimm talsins og aflinn var 67 tonn, mest keila og langa og svo var ýmislegt fleira með. Nú er komið að kærkomnu sumarfríi og það eru allir hressir og kátir,” segir Benedikt Jónsson, skipstjóri á Páli Jónssyni.

Dapurt á Eldeyjarbankanum

Og Óli Björn Björgvinsson, skipstjóri á Sighvati, segir fríið alltaf tilhlökkunarefni. Nú færi Sighvatur í slipp í Njarðvík og fríið yrði því í lengra lagi hjá áhöfninni.

„Við vorum með 57 tonn tonn að þessu sinni og það var mest langa og keila. Við byrjuðum túrinn á Eldeyjarbankanum en þar reyndist vera dapurt. Við færðum okkur á Skerin og síðan út á Fjöll. Lagt var fjórum sinnum en tvær lagnanna voru á Fjöllunum,” segir Óli Björn á svn.is.

Einar Ólafur Ágústsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur, er sagður sáttur við túrinn. „Við vorum á Belgableyðunni og á Eldeyjarbanka og komum með fullt skip af karfa. Ég held að slökunin sem framundan er verði vel þegin,” segir Einar Ólafur.