Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnuafli fiskveiðiárið 2022/2023 verði ekki meiri en 459.800 tonn, en það er 184.100 tonna aukning frá síðustu ráðgjöf. Aukning þessi byggir á mælingum úti fyrir Húnaflóa upp úr miðjum febrúar. Það er mat Hafrannsóknastofnunar að loðnan sem þar mældist muni líklegast hrygna á þeim slóðum.

Út frá varúðarsjónarmiðum hvetur stofnunin til þess að afli sem nemur viðbótarráðgjöf verði veiddur sem mest á þeim slóðum. Ef viðbótaraflinn yrði allur tekinn á hefðbundnum slóðum fyrir sunnan og vestan land yrðu allnokkrar líkur á að lítið af loðnu myndi hrygna þar. Með því að ganga ekki of nærri þeirri loðnu sem hrygnir við vestur- og suðurströnd landsins væri verið að leitast við að viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika innan stofnsins, auka líkur á góðri nýliðun og gera veiðarnar sjálfbærari. Með öðrum orðum, mælst er til þess að loðnuveiðarnar endurspegli á einhvern hátt dreifingu stofnsins eftir hrygningarsvæðum.

Hafrannsóknastofnun leggur því til að 2/3 af þeim 184 100 tonnum sem nú koma til hækkunar ráðgjafar sem gefin var út 3. febrúar verði veiddur norðan við Ísland á svæðinu frá Horni að Langanesi, eða að minnsta kosti 122.700 tonn.