Bráðabirgðasamantekt Hafrannsóknastofnunar sýnir að heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2024 var um 42.400 fiskar sem er um 30 prósent aukning frá árinu 2023 og um 2 prósent undir meðalveiði áranna frá 1974.

Þetta kemur fram í færslu á vef Hafrannsóknastofnunar. Aukning hafi orðið á laxveiði í öllum landshlutum.

„Í tölum um heildarlaxveiði eru taldir villtir laxar, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt). Laxveiði í ám sem byggja veiði á sleppingum gönguseiða var alls um 7.300 laxar sem er um 300 löxum minna en veiddist 2023 þegar 7.061 lax veiddist,“ segir Hafrannsóknastofnun.

36 prósent aukning á heildarstangveiði villtra laxa

Stangveiði í íslenskum ám frá 1974 - 2024. Veiðinni er skipt í landaðan afla (blátt), veitt og sleppt (grænt) og veiði úr sleppingum gönguseiða (rautt). Tölur frá 2024 eru bráðabirgðatölur. Mynd/Hafrannsóknastofnun
Stangveiði í íslenskum ám frá 1974 - 2024. Veiðinni er skipt í landaðan afla (blátt), veitt og sleppt (grænt) og veiði úr sleppingum gönguseiða (rautt). Tölur frá 2024 eru bráðabirgðatölur. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Áfram segir að við samanburð á langtíma þróun á stangveiði þurfi að taka tillit til þess að laxar úr gönguseiðasleppingum séu viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og einnig til þess að þegar veitt sé og sleppt í stangveiði veiði veiðist sumir fiskar oftar en einu sinni.

„Þegar litið er til veiða á villtum laxi í stangveiði eingöngu (ekki úr seiðasleppingum til hafbeitar), og áætlaður fjöldi endurveiddra laxa (veitt og sleppt) dregin frá, er heildarstangveiði villtra laxa árið 2024 um 35.000 laxar, sem er um 36% aukning frá 2023. Þrátt fyrir aukningu á milli ára þá er veiðin á árinu 2024 undir meðalveiði og hefur verið það síðustu 9 árin.

Fjöldi þeirra laxa sem ganga í ár er annars vegar háður fjölda seiða sem ganga úr ánum til sjávar og hins vegar hversu margir lifa sjávardvölina af og skila sér til baka í árnar. Almennt hefur dánartala laxa í sjó í Norður Atlantshafi farið vaxandi en ástæður þess eru ekki þekktar en bent hefur verið á þætti eins og loftslagsbreytingar, meðaflaveiði, áhrif fiskeldis og breytingar á búsvæðum í fersku vatni.

Sumarið 2024 einkenndist af miklu vatnsrennsli í flestum ám og því mikil breyting frá árinu 2023 þegar lágrennsli var einkennandi,“ segir Hafrannsóknastofnun. En sé verið að taka veiðitölur saman og eru veiðiréttarhafar hvattir til að skila veiðitölum sem fyrst. Lokatölur verði síðan gefnar út að því loknu.