Aurora fiskeldi ehf. formar að byggja landeldistöð fyrir lax á Grundartanga í Hvalfirði með 28 þúsund tonna framleiðslugetu.
Byggja á stöðina upp í þremur tveggja ára áföngum. Framkvæmdin fer í umhverfismat og hefur verkfræðistofan Efla unnið áætlun um matið. Áður hafði verið rætt um 14 þúsund tonna framleiðslu eins og fram kom í Fiskifréttum í ágúst í fyrra.
„Við framleiðslu á laxinum er notast við ferskvatn þar til fiskurinn nær 80-130 grömmum. Eftir það er notaður fullsaltur sjór. Við ferskvatns framleiðsluna verður notuð svokölluð RAS tækni en þá er um 99 prósent af vatninu endurnýtt. Í sjóhlutanum verður notaður sjór sem dælt er frá Hvalfirði,“ er áformunum lýst í skýrslu Eflu. Lagðar verði lagnir út í sjó og notast við nýjustu dælutækni til að minnka raforkunotkun.
Afar heppileg staðsetning
„Byrjað verður á ferskvatnshluta framkvæmdarinnar og í framhaldinu verður farið í sjóhlutann. Einnig er verið að skoða möguleika að kaupa 80 gramma seiði af öðrum framleiðendum til að byrja með. Mikil uppbygging er í landeldi og framkvæmdaraðilar að byggja upp frumeldi. Þeir verða því með auka afkastagetu á næstu árum í þeim hluta framleiðslunnar,“ segir Efla.
Nánar segir Efla að aðalvalkosturinn felist í því að Aurora fiskeldi byggi 28 þúsund tonna landeldisstöð til þauleldis á landi.
„Staðsetning stöðvarinnar er talin afar heppileg fyrir eldið vegna þess að svæðið er tiltölulega lágt í landi. Hæðarlega landsins leiðir til þess að ekki er þörf á eins mikilli orku við það að dæla sjó í gegnum stöðina,“ segir Efla.
Líffilter á saltvatn of dýr
Þá segir að Aurora hafi kynnt sér þann kost að vera með líffiltersstöð.
„Þessi tækni verður notuð í ferskvatnhluta stöðvarinnar vegna skorts á ferskvatni á svæðinu. Líffilter fyrir saltvatn er í dag ekki tæknilega fullkomin og það vantar verulega upp á rekstraröryggið. Auk þess sem sá kostur myndi vera mun dýrari fyrir framkvæmdaraðila. Áhættutakan við að byggja slíka stöð er óásættanleg fyrir framkvæmdaraðila, ásamt gríðarlegum kostnaði,“ tekur Efla fram.
Skipulagsstofnun hafa þegar borist umsagnir nokkurra aðila.
Möguleg mengun frá næstu lóð
Heilbrigðiseftirlit Vesturlands minnir á að það hafi í fyrri umsögn, er rætt hafi verið um 17 þúsund tonna framleiðslu, vakið athygli á reglugerð sem kveði á um að matvælafyrirtæki séu ekki nærri atvinnurekstri sem geti haft mengandi áhrif.
„Við hlið fyrirhugaðs landeldis er skipulögð 66.730 m2 en óbyggð iðnaðarlóð þar sem mögulega verður mengandi starfsemi. Þá eru fleiri óbyggðar iðnaðar og athafnalóðir í nágrenninu þar sem óvíst er hver starfsemi verður,“ segir heilbrigðiseftirlitið. Einnig sé eldið við eða innan náttúruverndar- og hverfis verndarsvæða og gæti haft neikvæð áhrif á möguleika til stækkunar þeirra.i.
Undrast stækkunina
„Það vekur undrun að búið sé að ákveða að stækka framkvæmdina um helming miðað við hvað mörgum þáttum var fyrir ósvarað og óljóst um álag á umhverfið, sér í lagi viðtaka, áhættu vegna sleppinga og möguleg áhrif fráveitu frá starfseminni á inntak nálægrar stóriðju,“ heldur heilbrigðiseftirlitið áfram.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar segir að í matsáætluninni sé gerð fullnægjandi grein fyrir gerð umhverfismatsins. Skýra þurfi þó ferskvatnsþörfina og hvernig henni verði mætt og hvernig komið verði í veg fyrir slysasleppingar við flutning sláturfisks.
Áhyggjur af Laxá í Leirársveit
Hafrannsóknastofnun bendir á að aðgengi að ferskvatni hafi verið takmarkandi varðandi uppbyggingu á Grundartanga.
„Sú vatnstaka sem nú er nýtt er á vatnasviði Laxár í Leirársveit sem er viðkvæm á þurrkatímum. Því er líklegt að aukin vatnstaka af vatnasviðinu geti haft neikvæð áhrif á lífríki Laxár,“ bendir Hafrannsóknastofnun á.
Veiðifélag Laxár í Leirársveit segir eldið geta haft ófyrirséð eða skaðlega áhrif á lífríki árinnar eða vatnasvæði hennar, þar með talið uppeldi, vöxt og viðgang fiskistofna.
„Þegar er um verulega vatnstöku að ræða (Tungu og Hlíðarfæti) til iðnaðarsvæðisins á Grundartanga. Vatnstakan hefur áhrif á vatnsmagn í ánni og getur haft verulega þýðingu fyrir lífríki árinnar einkum þegar rennsli er í lágmarki. Þá leggur veiðifélagið einnig áherslu á að tryggt verði að hvorki fiskur né sjúkdómar geti borist frá eldisstöðinni,“ segir stjórn veiðifélagsins.
Laxeldi efli fæðuöryggi
Fiskistofa segir að miðað við áformaðar þriggja þrepa aðgerðir Aurora fiskeldis gegn slysasleppingum séu litlar líkur á að eldisfiskar berist í náttúruleg vistkerfi laxfiska.
„Enn ein landeldisstöðin og það á stóriðjusvæði? Ég tel komið nóg og er ekki ein um það. Hlusta þarf á íbúa landsins og lífsgæði þeirra eiga að ganga fyrir þörfum fjárfesta,“ segir í athugasemd frá einstaklingi.
Aurora fiskeldi bendir á í svari að framleiðsla á laxi stuðli að sjálfbærri framleiðslu á matvælum og að tryggara fæðuöryggi.
„Lax er ríkur af ýmsum mikilvægum næringarefnum, svo sem próteini og fitu, og er framleiðsla á slíkum matvælum mikilvæg. Þá telur framkvæmdaraðili það vera kost að framleiðslan sé á svæði sem nú þegar er raskað sökum stóriðju, í stað þess að leggja undir ný landssvæði sem eru óröskuð. Jafnframt er mikilvægt að núverandi starfsemi stóriðju á svæðinu hafi ekki áhrif á áform framkvæmdaraðila,“ segir Aurora fiskeldi.