Þann 3.maí sl. tók fiskmjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar á móti 3.606 tonnum sem landað var úr færeyska uppsjávarveiðiskipinu Götunes.
Frá þessu segir á vef Loðnuvinnslunar þar sem fram kemur að langstærsti hluti aflans hafi verið kolmunni en lítilræði af makríl flotið með. Sé þetta lang stærsti farmur sem hefur komið úr einu skipi við löndunarbryggju LVF. Haft er eftir Magnúsi Ásgrímssyni, verksmiðjustjóra fiskmjölsverksmiðjunnar, að verksmiðjan réði vel við slíkt magn.
„Það tók einn og hálfan sólarhring að landa þessum afla og svo tekur svona fjóra sólarhringa að vinna hráefnið,“ segir Magnús sem kveður hráefnið hafa verið nokkuð gott en þar sem kolmunninn sé farinn að horast fari hann að mestu í mjöl.
Fögnuðu hverju kílói á vigtinni
„Skipverjar á Götunesi fylgdust vel með vigtinni og fögnuðu hverju nýju kílói undir lok löndunar því að þetta var líka mesti afli sem skipið hefur aflað í einum túr hingað til.
Það er alltaf gaman að ná nýjum áföngum líkt og taka á móti mesta afla til vinnslu úr einu skipi. En vertíðin er ekki búin þó svo að hún sé farin að styttast í annan endann og aldrei að vita hvenær næsta met fellur. Starfsfólk fiskmjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar stendur sína vakt og vinnur sín verk hvort heldur um metafla er að ræða eða ekki, en full ástæða er til að staldra við og fagna skemmtilegum áföngum,“ segir á lvf.is.