Skipahönnunarfyrirtækið Nautic hefur hannað uppsjávarvinnsluskip fyrir útgerð sem starfar á Arabíuskaganum og mun veiða í Indlandshafi. Skipið verður það tæknilegasta sem um getur meðal uppsjávarskipa hvað varðar vinnslubúnað og útfærslur.

Útgerðaraðilarnir settu sig í samband við Nautic og óskuðu eftir hönnun á skipi fyrir veiðar á miðsævistegundum. Málið hefur verið í gerjun í töluverðan tíma. Alfreð Tulinius skipahönnuður og stjórnarformaður Nautic segir skipið hannað sérstaklega í kringum vinnslubúnaðinn. Í skipinu verða sjálfvirkir frystar eins og þekkjast úr landvinnslunni, eins og t.a.m. hjá Eskju.

„Við erum í raun og veru að taka nákvæmlega sömu hugmyndafræði og þekkist í landvinnslu og færum hana út á sjó,“ segir Alfreð.

Um er að ræða veiðar á makríl og hestamakríl og öðrum tegundum í bland í miðsævistroll. Vinnslan um borð verður eins sjálfvirk og komist verður í sjálfvirknivæðingu. Frystigetan um borð verður um 300 tonn á sólarhring. Fiskurinn verður stærðar- og tegundarflokkaður með myndgreiningarbúnaði auk þess sem búnaðurinn flokkar frá gallaðan fisk. Fiskurinn er nákvæmlega vigtaður fyrir hverja pökkunareiningu og er pakkaður í poka með sjálfvirkum hætti. Pokarnir fara í bakka sem fara inn í frysta án þess að mannshöndin komi nokkur staðar nálægt ferlinu. Frystum afurðum er síðan pakkað í kassa af þjörkum, prentuð er út innihaldslýsing á kassa og þeim staflað af öðrum þjörkum á bretti. Brettin fara á lyftum inn í lestar skipsins þar sem þeim er staflað með sjálfvirkum hætti. Mannshöndin kemur hvergi nærri lönduninni heldur því sjálfvirka lyftukerfið flytur brettin með sjálfvirkum hætti úr skipinu og á bryggju. Með allri sjálfvirknivæðingunni er gert ráð fyrir um 35 manna áhöfn á skipið, en miðað við hefðbundna framleiðslu af svipuðu umfangi hefði mátt ganga út frá að þyrfti um 70 til 90 manns í áhöfn.

Sjálfvirknivæðing í öllu

Í skipinu verða sex RSW-kælitankar, hver um 130 rúmmetrar og samtals um 800 rúmmetrar að rúmtaki. Í hvern tanka verður dælt nálægt 70 tonnum af fiski beint úr sjónum eða sleppt úr flotvörpupokanum beint af þilfarinu þar sem aflinn verður kældur niður þar til honum er dælt upp úr tönkunum í stærðar- og tegundaflokkun, vigtun og frystingu. Hestamakríll og makríll eru svipaðar tegundir og því þarf sérstök tegundaflokkun að koma til. Unnið er að útfærslu á myndgreiningar- og þrívíddarskönnun til að annast þessa flokkun sem öllu jafna tíu manns sjá um t.a.m. í svipaðri vinnslu á sjó.

Alfreð Tulinius, skipahönnuður og stjórnarformaður Nautic.
Alfreð Tulinius, skipahönnuður og stjórnarformaður Nautic.

„Í útfærslunni á skipinu bjóðum við upp á að pokinn sé tekinn upp á þilfar eins og gengur og gerist eða að aflanum sé dælt upp úr trollinu eins og gert er á uppsjávarveiðum á Íslandi. Það eru ekki hefðbundin toggöng í skipinu enda um uppsjávarskip að ræða. Þess vegna getum við boðið uppá að vera með háa lóðrétta frysta og hæðin í skipinu fyrir frystana er um 6 metrar. Svo er í skipinu lestar á tveimur hæðum þannig að brettum er ekki staflað ofan á hvert annað heldur er ein stæða í hvorri lest. Skipið ber 1.700 tonn af frystum afurðum á brettum.“

Miðað við 300 tonna frystigetu á sólarhring og jafna og góða veiði tæki það tæpa sex sólarhring að fylla skipið afurðum.

Í ísklassa í Arabíuflóa

Skipið er 88 metrar á lengd og 18,6 metra breitt. Það verður líklega með um 6.200 kW aðalvél og skrúfu sem er 4,4 metrar í ummál. Hitastig sjávar á þessum slóðum getur farið í 32-36° Celsius. Engu að síður verður skrokkur skipsins sennilega smíðaður samkvæmt ísklassa. Þrátt fyrir meiri stálþykkt sé þyngdaraukning skipsins ekki mikil né heldur kostnaður. Það sem vinnst með ísklassa er að skipið verður gjaldgengara í notkun í öðrum heimshlutum og þannig víðtækari endursölumöguleikar á skipinu síðar á líftíma þess. Í þessu tiltekna skipi, með þessum mikla búnaði, er stálið ekki nema 5-8% af kostnaði við smíðina.

Vistarverur í skipinu minna helst á hótel af betri gerðinni. Innanrýmið er allt hannað af innanskipshönnuðum Nautic undir vinnuheitinu Oasis. Oasis þýðir vin og er vísað til þess að vistarverur áhafnar séu vin úti á opnu hafi en tengingin við vinjar í eyðimörk er augljós. Á sama hátt er kremgulur litur skipsins hugsaður til þess að taka síður í sig hita frá heitri sólinni í Arabíuflóa. Nautic hefur gert myndband um skipið sem leiðir áhorfandann í gegnum vinnslutæknina og vistarverurnar. Myndbandið var notað til að kynna hönnunina fyrir æðstu stjórnendum útgerðarfélagsins. Þetta er í fyrsta sinn sem Nautic kynnir sína hönnun með þessum hætti.

Hönnun Nautic er núna í útboði hjá nokkrum skipasmíðastöðvum, þar á meðal á Spáni og Tyrklandi. Innan tíðar er búist við að tilboð berist. Ljóst er að miðað við stærð og tæknilega útfærslu verður skipið dýrt í framleiðslu. Nautic er innan vébanda KNARR markaðssamstarfsins eins og íslensku fyrirtækin Brimrún, Frost, NaustMarine, Skaginn 3X og Skipatækni. Líklegt má telja að þau standi ágætlega að vígi í samkeppni við önnur tæknifyrirtæki um búnað í skipið.

.
.

Nándin við greinina

„Það sem íslensk fyrirtæki hafa er mikil nánd við greinina. Það hafa sprottið upp fyrirtæki sem vita hvað þau eru að gera í tengslum við sjávarútveg. Það er mikill léttir fyrir fyrirtæki eins og Nautic að geta hallað sér í átt að vissum aðila með fullvissu um að hann bregðist þér ekki. Við komum úr sömu menningu, tölum sama tungumál, höfum sama hugsanagang og allt samofið og sprottið upp úr sama umhverfi í mikilli nánd við sjávarútveginn. Ísland er bara ein stór tilraunastofa og Íslendingar eru mjög viljugir til þess að prófa alls kyns hluti sem annars staðar væru flokkaðir sem sturlun. Hvar annars staðar hefðu menn farið út í prófa sjálfvirkt karakerfi í lest, eins og riðið var á vaðið með í Engey, Akurey og Viðey? Hvergi annars staðar en á Íslandi, fullyrði ég. Þetta hefði samt aldrei gerst nema vegna vilja þeirra sem reka sjávarútvegsfyrirtækin og samstarfs. Þar skapast þessi gróska,“ segir Alfreð.