Siglingar í Landeyjahöfn hafa verið mikið skertar undanfarna mánuði og höfnin oft lokuð vegna dýpis.
Þessi staða var rædd á síðasta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Kom fram í máli Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra að óskað hafi verið eftir gögnum frá Vegagerðinni um ástæður þess að illa gengur að dýpka í Landeyjahöfn.
„Höfnin er ekki tilbúin og ef Landeyjahöfn á að vera samgöngumáti Vestmannaeyinga þarf að ljúka við framkvæmdina á höfninni til þess að hún nái þeim markmiðum sem sett voru í upphafi um nýtingu hennar. Það er ekki bara dýpið sem truflar heldur líka ölduhæðin sem orsakar frátafir í siglingum og mæta ekki þeim viðmiðum sem sett voru í upphafi,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Þá segir að kjörnir fulltrúar í Eyjum séu í miklum samskiptum við yfirvöld sem stýri samgöngumálum. „Samgönguyfirvöld bera ábyrgð og eiga að tryggja samgöngur við Eyjar,“ er ítrekað í fundargerðinni.
Eyjamenn fjölmenni á fund með ráðherra
Fram kemur að í þessari viku muni Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og vegamálastjóri mæta á íbúafund um samgöngur og eru Eyjamenn hvattir til að fjölmenna enda sé „fundurinn hugsaður fyrir þá til að eiga milliliðalaust samtal við þá ráðamenn sem bera ábyrgð á samgöngum Vestmannaeyinga“.
Í sameiginlegri bókun bæjarstjórnarinnar er síðan lýst verulegum vonbrigðum með stöðu dýpkunarmála við Landeyjahöfn og skorað á samgönguyfirvöld að taka almennilega á málaflokki samgangna við Vestmannaeyjar.
„Fyrirheit um nýtingu hafnarinnar fyrir ferjusiglingar hafa því miður ekki staðist. Ofan á slæmar aðstæður og veðurfar, gengur afleitlega að halda höfninni opinni eins og vænta mætti miðað við kostnað við dýpkun hafnarinnar,“ bókar bæjarstjórnin sem kveður engar haldbærar skýringar liggja fyrir á því hvers vegna dýpkun gangi jafn illa yfir veturinn og raun beri vitni.
Ferðaþjónusta liggur nær alveg niðri
„Það hlýtur að vera krafa Vegagerðarinnar að samningsaðilar uppfylli sínar skyldur við dýpkun hafnarinnar. Landeyjahöfn er ófær til siglinga stóran hluta vetrarins, með miklu óhagræði og skerðingu ferðafrelsis fyrir íbúa og atvinnulíf en ferðaþjónustan í Vestmannaeyjum liggur af þeim sökum nær alveg niðri stóran hluta ársins sem verður að teljast óásættanlegt í ljósi þess sem lagt var upp með framkvæmdinni í upphafi,“ segir bæjarstjórnin.
Á fundinum var einnig rætt um flugsamgöngur. „Ítrekað hafa bæjaryfirvöld bent á öll þau rök sem snúa að mikilvægi áætlunarflugs til Eyja. Ekki hefur vantað skilning ráðherra og þingmanna á þeim rökum, en sárlega hefur vantað eftirfylgni til að láta það raungerast,“ segir meðal annars um stöðu flugsamgangna í fundargerð bæjarstjórnarinnar.