Línuskip Vísis, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, lönduðu bæði í Grindavík í gær að afloknum páskatúrum. Benedikt Jónsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, sagði í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar að þar um borð væru menn ágætlega sáttir við túrinn.
„Aflinn var rétt rúmlega 100 tonn og þetta var ágætis millifiskur. Við vorum nánast allan túrinn á Jökultungunni og reyndar yst á henni. Alls var lagt þar sex sinnum og síðan var reyndar tekinn smástubbur á Grjóthryggnum í lokin. Það var smá kaldi í upphafi túrs en síðan var bara blíða,” sagði Benedikt.
Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson, skipstjóri á Sighvati, var einnig sáttur við páskatúrinn.
„Aflinn hjá okkur var um 75 tonn. Helmingur aflans var þorskur en síðan var þetta blandað; langa, keila, ýsa og karfi. Við vorum í Kolluálnum og síðan á Jökultungu og Jökulbanka. Þetta voru fimm og hálf lögn í túrnum en hann var styttri en venjulega vegna þess að enginn fiskur verður unninn hjá Vísi á fimmtudag og föstudag,” sagði Aðalsteinn Rúnar.
Páll Jónsson hélt á ný til veiða í gærkvöldi og Sighvatur heldur til veiða í dag.