Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra kynnir ríkisstjórninni á fundi í Skuggasundi í fyrramálið ákvörðum um það hvort hvalveiðar verði heimilaðar.

Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum liggja fyrir tvær umsóknir um leyfi til hvalveiða. Er það annars vegar umsókn frá Hvali hf. um leyfi til veiða á langreyði og hins vegar ein umsókn um heimild til hrefnuveiða. Mun þar vera um að ræða Þórð Steinar Lárusson á skipinu Deili GK að því er fram kom á visir.is fyrir fimm dögum. Þar sagði að Þórður hefði stundað veiðar á hrefnu á árunum 2009 til 2014.

Samkvæmt upplýsingum frá matvælaráðuneytinu mun matvælaráðherra fyrst kynna ákvörðun sína fyrir samráðherrum sínum og að ríkisstjórnarfundi loknum verður sú niðurstaða opinberuð með fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.