Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur keypt krókahlutdeild og krókaaflamark yfirstandandi fiskveiðiárs af Þórsberg ehf. á Tálknafirði. Aflaheimildir fyrirtækisins í lok ársins voru 1.477 þorskígildistonn sem voru á Indriða Kristins BA. Kaupverðið er 7,5 milljarðar króna.

BB.is á Ísafirði sagði frá þessu fyrst. Þar segir m.a. að aflaheimildirnar hafi verið bókfærðar á 4.132 milljónir kr. í lok árs 2023 og söluverðið nú fyrir þær sé 82% hærra en bókfært verð eða sem nemur 3.368 milljónum króna. Með einföldum útreikningi bendir bb.is á að greiddar hafi verið 5.000 krónur fyrir hvert kg.

„Sjö hluthafar eru í Þórsberg ehf. Brim hf er þeirra stærstur og á 40,8%. Litli vinur ehf á 39% hlutafjár en það á Guðjón Indriðason framkvæmdastjóri Þórsbergs að fullu. Eigið fé þess fyrirtækis er rúmur milljarður króna. Guðjón Indriðason á auk þess sjálfur 4% og fjögur Guðjónsbörn eiga samtals 12% hlutafjár.“