„Við rekum hérna tiltölulega lítið fyrirtæki og eigum ekki nægar veiðiheimildir til heilsársstarfsemi fyrir fyrirtækið sem slíkt. Við höfum fengið ákveðna aðstoð í formi byggðakvóta, sem er háð ákveðnum skilyrðum,“ segir Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Íslandssögu á Suðureyri.
Íslandssaga á aðild að tveimur samningum við Byggðastofnun um veiðiheimildir í þorskígildum. Annars vegar er þar samningur um kvóta fyrir Suðureyri, hins vegar um kvóta fyrir Flateyri.
„Við erum þá með aðgang að 500 ígilda kvóta fyrir Suðureyri, þar sem fiskvinnslan er í samstarfi við Hraðfrystihúsið Gunnvör um að veiða. Þetta er í sjálfu sér ágætis fyrirkomulag, það fækkar þeim dögum þar sem vinnsla og starfsemi fellur niður. Það nánast útilokar þá, en auðvitað þarf maður að fara vel með þetta og skipuleggja þetta,“ segir Auðunn.
„Þeir aðilar sem koma að þessu samkomulagi með okkur eru Aurora Seafood, sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í sæbjúgnaveiðum og vinnslu. Einnig Klofningur sem sérhæfir sig í öllu nema flakinu, tekur sem sagt restina og býr til þurrkaðar og frystar afurðir úr öllu nema flakinu.“
Klofningur er með starfsstöðvar á Suðureyri, Ísafirði og Tálknafirði.
„Síðan eru þarna erlendir aðilar sem eru með íslenskt fyrirtæki, þeir eru eiginlega þeir sem hafa séð um að skipuleggja vinnsluhlutann af þessu.“
Roð og lambahorn
Hinn samningurinn snýst um 400 tonna veiðiheimildir fyrir Flateyri.
„Þessir samningar eru hugsaðir til að viðhalda störfum í ákveðnu umhverfi. Við getum ekki gert hvað sem er við þennan kvóta. Hann þarf að vinnast hér og helst að koma á land í Flateyri. Við eigum að búa til ákveðinn starfafjölda og Vestfiskur Flateyri er fyrirtækið sem heldur utan um þetta. Þeir eru aðallega í því núna að þurrka roð, sem kemur frá Klofningi, og þeir eru að þurrka lambahorn. Það eru milli 600-700 þúsund lambahorn sem falla til á Íslandi á ári.“
Lambahornin eru notuð í gæludýrafóður, og þurrkaða roðið sömuleiðis.
„Þetta fer allt saman í gæludýrafóður, bæði þurrkað roð og lambahorn. Það er líka búið að gera tilraunir með þurrkun á öðrum afurðum úr sauðfjárslátrun og stórgripaslátrun. Það eru bein úr þessum stóru dýrum. Þetta er allt selt til útlanda. Íslenski markaðurinn er svo lítill að við myndum geta klárað hann á svona viku.“
Kínverjar passa sitt
Hugmyndin var að þurrka sæbjúgu líka en þegar covidfaraldurinn reið yfir heiminn lokuðust markaðir í Kína.
„Þetta gerðist innan fimm mánaða frá því við fórum af stað að það skellur á covid, og markaðir fyrir sæbjúgu lokast, sem átti að vera ein af undirstöðunum fyrir útgerðina. Þeir eru í sjálfu sér ekkert opnir ennþá. Það er búið að opna á að selja sæbjúgu, en aðeins óunnin. Eiginlega bara hráefni þannig að Kínverjarnir passa nú sitt. Þeir leyfa mönnum ekkert að fara of langt.“
Hann segir útgerðarþáttinn í þessu samkomulagi hafa reynst frekar erfiðan af þessum sökum.
„Vestfiskur átti að veiða þennan kvóta og landa honum til vinnslu hér. En þetta er frekar lítið af heimildum fyrir útgerð, hvernig útgerð sem það væri. Þeir eru með togara, jú, en þetta er bara alltof lítið á hann. Útgerðin er þannig það eina sem hefur ekki gengið nógu vel í þessu verkefni og mér finnst eiginlega kraftaverk að þetta skuli ennþá vera á lífi. En við munum leysa það,“ segir Óðinn en tekur fram að ekki liggi alveg fyrir hvernig það verður gert.
„Byggðastofnun þarf að samþykkja það því þetta er breyting á samningi, og það er ekki farið út í neitt nema það liggi fyrir samþykki. Við áttum að skapa eitthvað um 20 störf. Ég held að það hafi komist mest upp í 22. Eitthvað hefur fækkað eftir að útgerðin innan gæsalappa dettur út, en það kemur þá væntanlega inn aftur þegar útgerðin fer af stað.“
Árlega þarf að skila skýrslu til Byggðastofnunar um það hvernig gengið hafi að standa við samningana.
„Við höfum alltaf sagt það í lokaorðum skýrslunnar að við þyrftum að hafa 1500 tonnum úr að spila til að þetta geti verið alvöru. Það eru 500 hér og 400 á Flateyri. Og einmitt vegna erfiðleikanna við útgerðarþáttinn hefur það kannski ekki allt skilað sér inn til vinnslu hér. En það er eins og það er og það þarf þá bara að vinna í því að laga það.“
Frosin ýsa til Ameríku
Íslandssaga er stærsta fyrirtækið á Suðureyri, um 300 manna bæjarfélagi sem liggur vel við miðunum.
„Við erum með um 45 störf. Næst kemur Klofningur með 25-30 störf og svo Fisherman með eitthvað 15 til 20. Þetta skiptir allt máli. En svo er fullt af litlum útgerðaraðilum, einmenningar. Það er mikil smábátaútgerð hérna á sumrin. Það gerir staðsetningin, héðan er stutt á miðin.“
Aflinn er mest þorskur og ýsa „og svo steinbítur á vertíðinni. Við erum með einn bát sem við gerum út sjálfir, svona stór lítill. Síðan er aðili sem er búinn að vera með okkur í þessu frá upphafi, sem á Hrefnu ÍS, hann leggur allan sinn afla hér upp, og hann er aðili að þessu byggðakvótasamkomulagi öllu. Við höfum unnið þetta saman í gegnum tíðina.“
Hann segir það hafa komið sér vel að ýsukvótinn hafi verið aukinn.
„Auðvitað minnkaði þorskkvótinn en samsetningin er þannig hjá okkur að við erum tiltölulega stórir í ýsu, í krókaaflasamhenginu. Ég held að það hafi verið þremur tonnum meira sem var úthlutað þrátt fyrir skerðinguna í þorskinum.“
Afurðirnar hafa verið bæði ferskar og frystar, en undanfarið hefur áherslan verið á ýsuna og hún fer að stærstum hluta frosin á Ameríkumarkað. Lítið fer til Evrópu núna.
„Við höfum svo sem alltaf verið báðu megin og auðvitað sveiflast það til og frá. Stríðið í Úkraínu kemur glögglega fram í vaxa íbúa Evrópu. En þótt markaðir séu daprir einhvers staðar í einhvern tíma þá má maður ekki gleyma þeim. Því einhvern tímann þarf maður á þeim að halda aftur.“
Íslandssaga á sér rúmlega tveggja áratuga sögu, var stofnað 6. desember 1999.
„Þá keyptum við þetta fyrirtæki af Guðmundi Kristjánssyni í Brim. Hann átti þetta, var hluti af Básafelli á sínum tíma. Hann seldi okkur hérna eitt frystihús og 94 tonn af kvóta. Nú eigum við ennþá frystihús og einhver 1300 tonn af kvóta. Við erum dæmi um nýliðun í greininni, en við erum komnir á sjötugsaldurinn og þetta er búið að taka á. Hefur gengið bæði upp og niður. En þó einhver tonn hafi bæst við þá er það okkar skoðun að þetta sé nú bara eign samfélagsins. Við stýrum þessu bara. Við gerum ekki rassgat einir.“
Samningar um byggðakvóta
Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða 116/2006 hefur Byggðastofnun til ráðstöfunar aflaheimildir sem nota skal til að „styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.“
Stofnunin gerir þá samninga við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn, og skal hafa samráð við sveitarstjórn áður en samningurinn er undirritaður.
Samkomulag um aukna byggðafestu á Flateyri (2018)
Veiðiheimildir: 400 þorskígildistonn 2019-2025
Samningsaðilar: Vestfiskur Flateyri ehf., Vestfiskur ehf., Klofningur ehf., Aurora Seafood ehf. og Fiskvinnslan Íslandssaga ehf.
Samkomulag um aukna byggðafestu á Suðureyri (2019)
Veiðiheimildir: 500 þorskígildistonn 2018-2024
Samningsaðilar: Fiskvinnslan Íslandssaga hf., Norðureyri ehf., EA-30 ehf., Flugalda ehf., EA-30 ehf., Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., Klofningur ehf. og Vestfiskur ehf.