Gunnar Páll Hálfdánsson sem hætti sem framleiðslustjóri hjá Vinnslustöðinni árið 2018 til að gerast sölu- og verkefnastjóri Leo Seafood ehf. er nú aftur kominn í hóp fyrrum starfsfélaga eftir að Vinnslustöðin keypti Leo Seafood.

„Lykilstarfsmenn í fyrirtækjum eru gjarnan kvaddir með rjómatertum, gullúrum, sérmerktum golfkúlum eða einhverju álíka. Kveðjustundin hans endaði hins vegar í hópknúsi í fundarsal VSV og fer sem slík á spjöld sögunnar,“ er brotthvarf Gunnars Páls frá Vinnslustöðin 2018 rakið í færslu á vef fyrirtækisins.

„Þegar nú Vinnslustöðin hefur eignast Leo Seafood, og Gunnar Páll er á ný kominn í starfsmannaskrá VSV-samstæðunnar, hlýtur að koma til greina að bjóða hann velkominn á ný með hópknúsi en það er önnur saga,“ segir á vef Vinnslustöðvarinnar þar sem spjallað er við Gunnar Pál í tilefni þessara vendinga.

„Þetta er ekki samruni fyrirtækja heldur keypti Vinnslustöðin Leo Seafood og ég veit ekki annað en ætlunin sé að reka félögin áfram hvort í sínu lagi en í samstarfi. Starfsemin fellur mjög vel saman og verður báðum félögum örugglega til góðs og farsældar,“ er haft eftir Gunnari Páli sem segir ánægjulegast að fyrirtæki í Vestmannaeyjum hafi eignast Leo Seafood en ekki einhverjir á meginlandinu.