Fyrir rúmum fimm árum kvaddi Skagamaðurinn Guðmundur Jón Hafsteinsson Ísland eftir langan sjómannsferil og sigldi til Norður-Noregs þar sem hann er núna skipstjóri á krabbabátnum Birgerson.

Fleyið sem hann sigldi austur til Noregs árið 2016 var Aksel B, nýsmíði frá Trefjum í Hafnarfirði sem var sérhönnuð fyrir 11 metra veiðikerfið í Noregi. Guðmundur hefur síðan þá verið skipstjóri bátsins þar til hann söðlaði um fyrir skemmstu og fór að fást við veiðar á kóngakrabba á Birgerson.

„Ég get reyndar lítið sagt þér frá þessum bát og veiðunum því ég tók nýlega við honum og bara farið tvo túra,“ segir Guðmundur. Báturinn er gerður út frá Havøysund, nyrst í Noregi en sjálfur býr Guðmundur í Mehamn lítið eitt austar.

Deadliest Catch

Guðmundur vakti athygli á breytingum á sínum högum á samfélagsmiðlum. Þar birtir hann mynd af sér við Birgerson og með honum á myndinni er Sig Hansen, Bandaríkjamaður af norskum ættum sem þekktur er sem harðvítugi skipstjórinn á krabbabátnum FV Northwestern í heimildamyndaseríunni Deadliest Catch sem hefur verið í framleiðslu allt frá árinu 2005. Það var þó ekki svo að Hansen væri kominn í áhöfn Birgerson. Hann og kvikmyndatökulið voru í nokkra daga á þessum slóðum í efnisöflun til að fylla upp í og halda seríunni á lífi því veiðar á kóngakrabba liggja niðri um þessar mundir við Alaska og í Beringshafi. Útgerð Birgerson leyfði þeim að fara á bátnum að vitja gildra og það efni var tekið upp og verður líklega notað í næstu þætti. Guðmundur segir að þættirnir séu að meira að minna leyti leiknir og eigi lítið skylt við raunveruleikasjónvarp.

Ólíku saman að jafna

Guðmundur segir það mikla breytingu að fara af Aksel B yfir á Birgerson sem er miklu stærri bátar og á allt annars konar veiðum. Aksel B er 18 tonna bátur en Birgerson 150 tonn. Fjórir eru í áhöfn og krabbinn er veiddur í gildrur sem eru flestar lagðar á hafsbotninn rétt vestan við Havøysund. Gildrurnar eru 50 talsins og það eru dregnar hátt í 30 gildrur á dag. Guðmundur hefur farið tvo túra og í þeim síðasta lönduðu þeir einu tonni sem þykir góður afli. Beitt er með síld og þorskhausum sem eru hafðir í pokum sem hanga í gildrunum. Krabbinn rennur á lyktina og skríður inn um göt á gildrunum sem eru þannig gerð að hann kemst ekki út úr þeim aftur. Meðalþyngd krabbans er um eitt og hálft kíló. Með RSW kælingu er hluta aflans haldið á lífi og krabbinn seldur lifandi.

„Mér líst bara vel á þetta. Það er gaman að takast á við eitthvað nýtt og ég er ekki á heimleið. Hérna er umhverfið með allt öðrum og betri hætti en á Íslandi. Hér er regluverkið mun opnara og menn mega veiða meira. Ég gerði út strandveiðibát á Íslandi og þar virðist allt snúast um að hafa stöðugt meira fé af mönnum. Svo finnst mér spilling og sóðaskapur vera í kringum íslenska kvótakerfið.“

Guðmundur hafði komið víða við í sjómennsku á Íslandi áður en hann hélt utan. Hann var meðal annars stýrimaður á Víkingi AK, afleysingastýrimaður á Faxa RE og Lundey SK og á togurum heima á Akranesi.

„Sjómenn hafa það betra í Noregi. Möguleikarnir eru líka fleiri. Ef það dytti í mig að kaupa mér trillu hérna í Finnmörku fengi ég krabbakvóta, 18-20 tonn af þorski og ég mætti veiða eins mikið af ýsu og öðrum tegundum og mig lystir. Hér sjást varla togarar. Hér er lögð áhersla á bátamennsku og það er mikið líf í höfnunum allt árið um kring. Hér er fólki gert kleift að lifa af sjómennsku og öðru sem það tekur sér fyrir hendur,“ segir Guðmundur.

Á ýsu allt árið

Mjög hefur bæst í hóp Íslendinga sem sækja sjóinn í Norður-Noregi. Þarna er fjöldi lítilla útgerðarstaða vítt og breitt, 800-1.000 manna byggðir með öflugri smábátaútgerð. Þegar rætt var við Guðmund í veðurblíðunni á Íslandi í lok apríl var hann í kafaldsbyl og mínus fjórum gráðum heima hjá sér í Mehamn. En það er orðið bjart nánast allan sólarhringinn. Svo í maí er komið vor og sumar eins og hendi sé veifað.

Hvað veiðarnar varðar eru þær stöðugur allt árið þótt vissulega bresti á vertíð líka. Loðna gengur meðfram ströndinni með tilheyrandi lífi í sjónum. Þá eru uppgrip hjá netabátum við Lofoten-svæðið. Mikil ýsuveiði er úti á bönkunum að vetrarlagi og þær veiðar eru frjálsar fyrir báta undir 11 metrum. Það ásamt 14-20 tonna þorskkvóta tryggi ágæta afkomu. Sumir eru bara á ýsu allt árið og koma ágætlega út úr því.

„Það er talsverð nýliðun í sjómannastéttinni hérna en samt er það dálítið snúið því stífar kröfur eru gerðar til öryggismála alveg eins og heima. Hérna tíðkast líka talsvert að ungir menn eru teknir inn sem lærlingar. Ef þeir finna sig í þessu fara þeir gjarnan á öryggisnámskeið og geta haldið áfram sem hásetar. Hér er sams konar hlutakerfi og tíðkast heima á Íslandi,“ segir Guðmundur að lokum.