Býsna margir standa væntanlega í þeirri trú að íslenskir sjómenn hafi frá upphafi verið nánast eingöngu karlar. Þekktasta undantekningin hafi verið Þuríður Einarsdóttir, eða Þuríður formaður eins og hún er jafnan nefnd, sem gerði út skip frá Stokkseyri og stýrði því af mikilli röggsemi.

En í raun er það bara furðu lífseig þjóðsaga að konur hafi lítt stundað sjóinn hér við land.

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á sjómennsku íslenskra kvenna. Þar ber hátt tvær bækur Þórunnar Magnúsdóttur sagnfræðings, Sjókonur á Íslandi 1891-1981 og Sjósókn sunnlenskra kvenna frá verstöðvum í Árnessýslu 1697-1980.

Bandaríski mannfræðingurinn Margaret Willson hefur einnig skrifað bók um íslenskar sjókonur, Seawomen of Iceland - Survival on the Edge, sem gefin var út í Seattle árið 2016.

Margaret Willson hefur komið reglulega til Íslands síðustu árin og var hér á landi í nokkrar vikur snemma í vor. Hún gaf sér þá tíma til að setjast niður með blaðamanni Fiskifrétta í kaffiteríu Þjóðarbókhlöðunnar, þar sem hún var annars að grúska í skjölum um Þuríði formann.

Þuríður er efniviður næstu bókar hennar, og Þuríður varð einnig kveikjan að því að Margaret tók að kynna sér sögu íslenskra sjókvenna, eins og lesa má um í stuttum kafla úr bók hennar sem birtur er hér að neðan.

ParagraphKona með pípu og fisk á árunum um 1920. MYND/Frá Þjóðminjasafninu
ParagraphKona með pípu og fisk á árunum um 1920. MYND/Frá Þjóðminjasafninu

Var sjálf á sjónum
Hún segir meginástæðu þess að hún tók að sér þetta verkefni þó líklega mega rekja til þess að sjálf ólst hún upp í litlu sjómannasamfélagi á vesturströnd Bandaríkjanna.

„Það var í Oregon, en fiskurinn var mikið til farinn þannig að margir voru atvinnulausir.“

Hún fékk einnig vinnu á bát sem háseti, þegar hún lagðist í ferðalög ung að árum.

„Ég held ég hefði varla fengið áhuga á þessu efni ef ég hefði ekki sjálf kynnst þessu. Ég hefði ekki vitað hvaða spurninga ætti að spyrja, og þær konur sem ég talaði við hefðu varla haft áhuga á að tala við mig.“

Enda mætti henni oft tortryggni fyrst í stað en svo þegar viðmælendurnir fréttu af því að hún hafi sjálf verið á sjó þá breyttist afstaðan.

„Þegar þær áttuðu sig á því að við gátum talað saman um alls konar hluti sem tengjast sjónum og bátunum, þá gátu þær slakað á. Sumar þeirra eru mjög góðar vinkonur mínar núna.“

Bókin hennar, Seawomen of Iceland, er ekki skrifuð eins og fræðirit, þó vísað sé af fræðilegri nákvæmni í allar heimildir. Bókin er frásögn af ferðum hennar um landið, samtölum við íslenskar sjókonur og fólk í sjávarþorpum, og einnig greint frá því sem hún komst að með grúski í gömlum bókum og skjölum.

Smám saman áttaði hún sig á því að Þuríður formaður var ekkert einsdæmi. Íslenskar konur höfðu stundað sjóinn í miklu meira mæli en almennt talið.

Fyrst kannaðist enginn við neitt
Þær óku tvær um landið á pínulitlum Toyota, hún og aðstoðarkona hennar, Birna Gunnlaugsdóttir, sem ólst upp á Flateyri og hafði einnig lokið gráðu í mannfræði.

„Hún var sem betur fer mjög góð að keyra í snjó og hálku. Við heimsóttum alla þessa litlu bæi um allt land, og alltaf þegar við komum á nýjan stað byrjuðum við á því að spyrja fólk hvort það vissi um einhverjar konur sem stunduðu sjóinn. Fyrstu viðbrögðin voru alltaf eins. Fólk mundi ekki eftir neinum, en svo þegar við vorum búin að spjalla í nokkrar mínútur þá sagði einhver kannski: Heyrðu, hún Elín, er hún ekki á sjó? Og þá kom í ljós að hún var búin að sækja sjóinn í þrjátíu ár, eða eitthvað slíkt.“

Hún segir veruleika íslenskra sjókvenna hafa verið nánast í felum. Fáir geri sér grein fyrir því að sjósókn kvenna hafi verið töluvert algeng, ekki bara á allra síðustu árum heldur ekki síður fyrr á tíð.

Það var svo þegar hún setti fyrirspurn á Facebook sem sprengjan sprakk, upplýsingarnar streymdu í stríðum straumum um íslenskar sjókonur, og þá frekar þegar lengra var leitað aftur í söguna. Greinilegt var að sjómennska kvenna við Íslandsstrendur var og hafði verið algengari en flestir héldu.

Allar gufuðu þær upp
Í bók sinni skrifar hún:

„Ég braut heilann mjög til að reyna að skilja hvers vegna þær höfðu svo margar stundað sjóinn en síðan - púff! - þær virtust bara gufa upp, að undanskilinni Þuríði formanni einni. Mér virtist þetta ganga þvert gegn öllu því sem maður hefði búist við: Með auknu jafnrétti fyrir konur eftir því sem aldirnar liðu, myndi þá ekki þátttaka þeirra í sjómennsku líka aukast?”

Þegar heimildir fyrri tíðar voru betur skoðaðar komst hún að því að fyrir miðja nítjándu öld eða svo hafi sjómennska kvenna ekki þótt neitt tiltökumál. Það var ekki fyrr en líða tók á seinni hluta 19. aldar og jafnvel enn frekar þegar komið var fram á 20. öld sem fólk fór að gefa þeim konum hornauga sem fóru á sjóinn.

„Áður fyrr var þetta var svo algengt, að það var ekki minnst á þær í heimildum. Ég á Þórunni Magnúsdóttur sagnfræðingi mikla skuld að gjalda, en hún komst að því að á 18. og 19. öld voru konur að minnsta kosti þriðjungur þeirra sem sóttu sjóinn. Mér tókst að staðfesta þetta, og mín kenning er sú að þjóðin hafi verið svo fámenn að það hafi einfaldlega ekki verið nægur mannskapur til þess að hægt væri að mismuna gegn konum á þessu sviði. Ef það þurfti að manna átta manna bát, þá þurftu allir sem vettlingi gátu valdið að fara. Enginn á bænum var undanskilinn. Það eru til sögur af konum sem vildu ekki fara á sjóinn, en höfðu ekkert val um það, og það sama gilti raunar um karla. Alls staðar við sjávarsíðuna var það þannig að enginn vildi taka við fólki í vinnumennsku nema það væri tilbúið að fara á sjóinn, og þá skipti engu máli hvort það væri karl eða kona.“

Halldóra Ólafsdóttir formaður við stjórnvölinn ásamt áhöfn sinni á Breiðafirði á átjándu öld. Myndina málaði Bjarni Jónsson. MYND/Frá Þjóðminjasafninu
Halldóra Ólafsdóttir formaður við stjórnvölinn ásamt áhöfn sinni á Breiðafirði á átjándu öld. Myndina málaði Bjarni Jónsson. MYND/Frá Þjóðminjasafninu

Betri en eiginmaðurinn
Síðan eru til sögur af bóndakonum sem voru betri sjómenn en eiginmenn þeirra, þannig að þótt bóndinn hafi formlega verið skráður formaður þá hafi konan í reynd verið við stjórnvölinn.

„En þær eru varla nefndar á nafn í heimildum. Ég fann samt heimildir, til dæmis um konu sem bjó á Ólafsvík og hét Þórunn. TIl er skemmtileg rásögn af því að hún hafði einhvern tímann verið drukkin, og þá var nefnt að hún hafði verið formaður í þrjátíu ár. Það er langur tími, en hún varð aldrei fræg eins og Þuríður formaður. Enda er Kambránsmálið í raun eina ástæða þess að við vitum svona mikið um Þuríði og vegna þess að Brynjólfur Jónsson skrifaði sína frægu bók um það.“

Önnur kona, Halldóra Ólafsdóttir, nefnd Halldóra klumbufótur, stundaði sjóinn við Breiðafjörð eins og margar konur þar.

„Hún átti bát og tók aðeins konur, en bræður hennar tveir áttu líka hvor sinn bátinn. Þeir bræðurnir voru ríkir og það er sagt að auðæfi þeirra kæmu eingöngu til út af því hve góður formaður hún var og aflaði vel. Einnig er sagt að þau systkinin hafi oft verið að keppa sín á milli á bátunum og hún hafði yfirleitt betur.“

Hún segir reyndar Breiðafjörðinn líklega hafa haft einhverja sérstöðu, því þar var fólk svo háð því að sigla á milli eyjanna. Allir tóku þátt í því.

„Önnur kona við Breiðafjörð var Guðrún Jónsdóttir. Þetta var á átjándu öld og þegar hún var um sextugt dó sonur hennar þegar hann var að flytja einhvern yfir Breiðafjörð, og þá var sagt að áfallið fyrir hana hafi verið enn meira vegna þess að ef hún hefði verið um borð þá hefði bátnum ekki hvolft. Hún hefði kunnað að sigla miklu betur. Eftir þetta fór hún alltaf með öðrum syni sínum, hún sagðist ekki ætla að láta annan son sinn drukkna.“

Viðhorfin breytast
Margarete segir merkilegt að skoða hvernig viðhorfin til sjómennsku kvenna breyttust. Sérstaklega sé athyglisvert að sjá þær breytingar sem urðu um miðja nítjándu öld og fram á þá tuttugustu.

„Það er svo greinilegt að þegar kemur fram á seinni helming 19. aldar verður breyting á því hvernig talað er um sjókonur. Áður var fjallað lofsamlega um þær, rétt eins og karla, og þeim hrósað fyrir ýmis afrek. En svo breytist þetta og maður fer að sjá orðalag eins og: Hún var jafngóð á sjónum eins og í eldhúsinu. Það er ekki beinlínis verið að gera lítið úr þeim, en sterklega gefið til kynna að það væri frekar við hæfi að þær héldu sig inni á heimilinu. Þær geti kannski verið á sjónum meðfram. Síðan þegar lengra líður, þá sér maður að byrjað er að gagnrýna þær beinlínis fyrir sjómennskuna. Þetta er byrjað að sjást undir lok nítjándu aldar, og svo um aldamótin 1900 sjást enn greinilega breytingar því þá eru kynjahlutverkin farin að verða ósveigjanlegri.“

Margaret nefnir dæmi um konu sem hét Guðný Hegland. Henni fanst óskaplega gaman að fara á sjó með föður sínum, en frænka hennar tók það ekki í mál.

„Það mætti ekki ala hana upp eins og karlmann heldur þyrfti hún að læra kvenlegar skyldur sínar. Þarna er sjórinn farinn að tilheyra körlunum eingöngu. Á tuttugustu öldinni er það síðan þannig að konurnar eru enn á sjó, en aðeins á smábátunum. Þegar stærri skipin koma, togararnir, þá eru þær ekki þar.“

Miklar breytingar verða hér á landi með tilkomu togaranna, fólkið tekur að flytja úr sveitum í hafnarþorpin og þar rísa landvinnslur sem þurfa vinnuafl.

„Þá verður þetta þannig að karlarnir verða á togurunum en konurnar í landvinnslunni. Konur eru reyndar enn að fara á sjó, en miklu færri en áður og veiðarnar voru minni. Þær eru enn á smábátum og enn mjög góðar. Framan af öldinni sér maður þær fara margar einar út á sjó.“

Hjátrú tuttugustu aldar
Það er svo ekki fyrr en á síðustu áratugum sem viðhorfin taka að breytast aftur til fyrra horfs, og konur eru teknar að fara í auknum mæli á sjóinn, jafnvel á stærri skip.

Þetta er sumsé seinni tíma fyrirbæri að konur eigi ekki heima á sjónum, og sömu sögu er að segja um þá hjátrú að konur um borð séu óheillamerki. Slík hjátrú finnst ekki í eldri heimildum.

„Þvert á móti gat það meira að segja verið góðs viti að hafa konu um borð. Sérstaklega á það við um selveiðar. Það var talið að selurinn gæti ekki staðist það ef kona væri um borð, sérstaklega ef hún væri ólétt og allra best væri að hún væri klædd í eitthvað rautt. Það átti að laða að selinn.“

Margaret Willson segir margt óvenjulegt við Ísland, bæði smæðin og ekki síður hið mikla magn ritaðra heimilda sem varðveist hafa um fólkið í landinu. Þannig að þegar hún er spurð hvort vitað sé til þess að konur hafi verið mikið á sjó í nágrannalöndum okkar hér áður fyrr, þá segir hún erfitt að fullyrða neitt um það.

„Annars staðar halda menn því fram að einungis konur hafi verið á sjó, en málið er að Íslendingar halda þessu líka fram. Miðað við hvernig sagan hefur verið skrifuð hérna, og flestir sem skrifuðu um þetta voru karlar, þá gæti maður líka haldið að hér hafi konur ekki stundað sjóinn í neinum mæli. Ef miða ætti við þá sögu sem skrifuð hefur verið gæti maður meira að segja haldið að varla neinar konur hafi búið í landinu. En svo eru til þessar stórkostlegu frásagnir, þar sem konur segja frá því hvernig þetta líf var, jafnvel í viðtölum. Öll þessi ættfræði líka og skrár frá prestum og öðrum. Ég veit ekki um neinn annan stað sem er með svona frábærar heimildir um líf almennings, því venjulega eru bara til upplýsingar um elítuna.“

Ímyndun og veruleiki
Sjálf hefur hún komist að því að þær heimildir sem til eru leyna verulega á sér. Þar er hægt að finna mun meiri upplýsingar um fólk á fyrri tíð og jafnvel einstaklinga sem fátt eitt hefur verið vitað um.

„Nú er ég að vinna að bók um Þuríði formann. Fyrst var ég treg til að ráðast í þetta verkefni vegna þess að ég hélt að varla neitt væri til um hana fyrir utan þessa frægu bók eftir Brynjúlf Jónsson. En svo hef ég, ásamt aðstoðarkonu minni, haft uppi á alls konar heimildum sem gefa fyllri mynd af henni. Ekki síst með því að kafa ofan í alla þessa ættfræði. Þar sér maður tengslin á milli fólk, og svo rekur maður sig áfram. Þetta er stórkostlegt.“

Ein teiknuð mynd er til, sem á að vera af Þuríði, en er í raun ímyndun teiknarans, karlmanns sem gerði sér hana svona í hugarlund. Margaret segir samtímamenn Þuríðar hafa fullyrt að í raun og veru hafi hún ekki verið neitt lík því sem teikningin sýnir.

„Þetta er mjög karlhverfur hugarburður eins karlmanns sem greinilega endurspeglar hugmynd hans um að kona sem er skipstjóri og klæðist buxum hljóti að hafa verið mjög karlmannleg í útliti,“ segir Margaret. „Ég hugsa að sjókonur hafi oft orðið fyrir slíku, að samfélagið dragi upp mynd af þeim sem samræmist í engu því sem þær eru í raun og veru.“

Hér á eftir fara tveir stuttir kaflar úr bókinni Seawomen of Iceland eftir Margaret Willson:

Eiginkonur skipstjóranna
Margaret Willson fór sjálf á sjóinn rúmlega tvítug, ekki þó á heimaslóðum í Oregon heldur í Tasmaníu. Þar losnaði óvænt pláss á litlum netabát og hún hreppti hnossið:

Eftir nokkra túra kom skipstjórinn til mín dapur á svip. „Mér þykir það leitt,“ sagði hann, „en ég verð að láta þig fara.“

„Hvers vegna?“

Hann tvísteig vandræðalega. „Þú vinnur vel, en ég sagði konunni minni aldrei frá því að ég væri að ráða stelpu á bátinn. Hún komst að því, og hún er brjáluð. Þannig að ég verð að láta þig fara.“ Hann horfði út á hafið. „En þú ert góður háseti. Ef þú þarft meðmæli á öðrum bát, þá skal ég glaður láta þig fá þau.“

Ég kinkaði kolli skilningsrík og sneri burt niðurdregin. Enginn myndi nokkurn tímann ráða mig, hugsaði ég með mér.

En ég hafði rangt fyrir mér. Daginn eftir kom að máli við mig maður að nafni Alex. „Mér skilst að þú sért að leita þér að vinnu,“ sagði hann.

„Jú.“

„Ja, ég hef nú yfirleitt verið einn að vinna, en ég þarf háseta.“

„Hvað finnst konunni þinni um það?“

„Komdu heim með mér og spurðu hana sjálf.“

Konan hans sagði mér, meðan Alex var í öðru herbergi, að það hafi verið hún sem stakk upp á því að hann réði mig. Alex hafði orðið fyrir arseneitrun þegar hann var ungur. Núna, þegar hann var orðinn fimmtugur, dró þetta máttinn úr fingrum hans og truflaði jafnvægisskynið. Hann hafði þráfaldlega neitað því að ráða til sín háseta. Konan hans hafði heyrt um mig, þessa hásetastelpu, og hún lét sér detta í hug að kannski gæti hann hugsað sér að ráða stelpu, sem hann myndi ekki líta á sem „alvöru“ háseta og yrði ekki nein ógn við karlmennsku hans í einverunni. Hann féllst á þetta. Ég var í skýjunum.

Þuríður formaður, eins og karlkyns teiknari ímyndaði sér að hún gæti hafa litið út. MYND/Frá Þjóðminjasafninu
Þuríður formaður, eins og karlkyns teiknari ímyndaði sér að hún gæti hafa litið út. MYND/Frá Þjóðminjasafninu

Var Þuríður kona?
Margaret Willson kom fyrst til Íslands árið 1999, í boði íslenskrar vinkonu sinnar, Dísu. Dag einn komu þær til Stokkseyrar:

Við gengum um mannauðar göturnar og innan um gulu húsin rákumst við á gluggalausan steinkofa með lágreistu torfþaki og grasi þakinn steinvegg umhverfis sem augljóslega þurfti viðhalds með.

„Hvað er þetta?“ spurði ég.

„Hérna er skilti,“ sagði Dísa. Hún gekk að upplýsingaspjaldi og tók að þýða íslenskuna.

„Þetta er endurgerð af vetrarbúðum Þuríðar Einarsdóttur, eins af merkustu formönnum Íslands. Hún lifði frá 1777 til 1863, reri frá Stokkseyri og var rómuð fyrir að afla meira en aðrir og að hafa aldrei misst nokkurn bátsverja á þeim sextíu árum sem hún stundaði sjóinn.“

„Bíddu nú við,“ sagði ég. „Hún? Var þessi frægi skipstjóri kona?“ Ég fann hljóðan hroll hríslast eftir handleggjum mínum fram í fingurgóma. Ég vissi að þarna væri ég komin í tæri við merkilega sögu.

„Já, amma mín sagði okkur sögur af henni.“

„Ja, hérna,“ ég staldraði við. „Hvað með núna? Er mikið af konum á sjó á Íslandi í dag?“

„Ég veit það ekki,“ sagði Dísa. „Ég hef aldrei heyrt um neinar.“