Mörg íslensk uppsjávarskip voru á landleið með kolmunnafarma eftir ágætar veiðar í færeyskri lögsögu skammt norðan við miðlínuna við Skotland. Kristján Þorvarðarson skipstjóri á Venusi bjóst við því að koma inn til Vopnafjarðar snemma í dag en rétt á undan var Svanur RE á landstími einnig. Heimsiglingin tekur um 30 klukkustundir.

Venus hélt suður á bóginn 3. janúar síðastliðinn og lenti strax í ágætri veiði. Fljótlega dró þó verulega úr veiðinni og svo bættist við einn bræludagur. Kristján segir að svo hafi lifnað mikið yfir veiðinni á þriðjudaginn.

„Veiðisvæðið er austan Færeyja suður við miðlínuna að Skotlandi. Þetta er langt að fara eða nálægt um 400 sjómílna sigling. Þarna eru flest þau íslensku uppsjávarskip sem stunda kolmunnann og svo eru flestir Færeyingarnir byrjaðir á þessum veiðum en það er fátt um rússnesk skip. Yfirleitt eru um þetta leyti árs tugur rússneskra skipa þarna en þau eru bara tvö núna, hvað sem því veldur.“

Kristján Þorvarðarson skipstjóri.
Kristján Þorvarðarson skipstjóri.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Kristján segir kolmunnann dálítið blandaðan að stærð en hann standist öll mál. Aflinn fer allur í bræðslu á Vopnafirði og að lokinni löndun verður haldið aftur á sömu slóðir. Kolmunnakvótinn var aukinn verulega á þessu ári eða um 80% frá fyrra ári, fór úr 150.000 tonnum í 270.000 tonn.

Farnir að horfa til loðnuveiða

„Við erum að vonast til þess að ná öðrum góðum túr en mynstrið á þessu er þannig að kolmunninn gengur suður úr færeysku lögsögunni að Rockall svæðinu þar sem hann hrygnir. Við getum því ekki athafnað okkur fyrr en hann gengur aftur út úr skosku lögsögunni en þá verðum við vonandi farnir að veiða loðnu. Hafró fer í loðnuleit í dag eða á morgun og finnur vonandi einhverja viðbót svo hægt sé að bæta við kvótann,“ segir Kristján. Hann segir talsverðan spenning fyrir komandi loðnuvertíð.

Víkingur RE, þriðja uppsjávarskip Brims, var langt komið með að fylla sig líka. Mörg önnur íslensk uppsjávarskip voru einnig að klára sína túra og á heimleið, þar á meðal Hákon EA, Börkur NK og Barði NK. Heimaey VE, Sigurður VE og Aðalsteinn Jónsson SU voru á veiðum fyrir sunnan Færeyjar og síðarnefndi í sínum öðrum túr á þessu ári.

Kristján Þorvarðarson, skipstjóri á Venusi NS. MYND/AÐSEND

Venus NS er á heimleið tíu daga kolmunnatúr. FF MYND/ÞORGEIR BALDURSSON