Fyrsta september næstkomandi verða 50 ár liðin frá því Íslendingar færðu út fiskveiðilögsöguna í 50 sjómílur. Það leiddi af sér annað þorskastríðið sem stóð frá 1972-1973. Líklega hefur fátt hreyft jafn sterkt við þjóðerniskennd landsmanna og baráttan við stórveldi í Evrópu um yfirráðarétt yfir fiskimiðunum við Ísland. Fáir hafa líka fjallað jafn mikið um þorskastríðin og sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson og núverandi forseti Íslands.
Á þessum tímamótum kemur út ný bók hans um landhelgismálið. Guðni gaf sér samt tíma til að fara hnitmiðað yfir þessar hræringar í heimsmálunum fyrir 50 árum með blaðamanni Fiskifrétta.
Guðni skrifaði bókin Þorskastríðin þrjú – Saga landhelgismálsins 1948-1976 sem Hafréttarstofnun Íslands gaf út árið 2006. Á tímum heimsfaraldursins tók hann upp þráðinn og skrifaði bók um sögu landhelgismálsins frá 1961-1971 sem kemur út 1. september næstkomandi. Farið er dýpra í saumana á málinu en í fyrri bók. Kveðst Guðni hafa notið þess mjög að hverfa aftur inn í þennan heim og taka frí frá ys og þys samtímans.
Guðni segir útfærslu lögsögunnar fyrir 50 árum hafa verið mikið skref á sviði alþjóða hafréttar.
Ruddum brautina
„Vissulega höfðu ýmis ríki í Rómönsku Ameríku gengið skrefinu lengra nokkru fyrr og tekið sér 200 sjómílna lögsögu. En hér á Norður-Atlantshafi ruddum við þessa braut. Til þess þurfti kjark, þor, hugrekki og bíræfni. Ýmsar aðrar þjóðir voru ekki sáttar við þessa ákvörðun. Það liðu ekki nema nokkrir dagar þar til fjandinn varð laus á miðunum. Ástæðan var sú að þá tókum við loks í notkun „leynivopnið“ skæða, togvíraklippurnar sem gerbreyttu gangi mála á hafi úti. Við höfðum háð okkar fyrsta þorskastríð 1958 til 1961 þegar lögsagan var færð út í 12 mílur. Þá var staðan á miðunum sú að okkar ágætu varðskipsmönnum var illmögulegt að stöðva togara við ólöglegar veiðar og koma í veg fyrir þær. Klippurnar gerðu varðskipsmönnum kleift að stöðva veiðar án þess að þurfa að færa togara til hafnar. Bretar vissu fyrst ekki hvaðan á sig stóð veðrið og mótmæltu harkalega. Þeir vildu forðast í lengstu lög að senda herskip á Íslandsmið. Þeir vissu af biturri reynslu að þótt herskipin gætu veitt breska flotanum vissa vernd þá væri það aldrei nein framtíðarlausn og hefði alls kyns pólitískar afleiðingar,“ segir Guðni.
Togvíraklippurnar voru þó ekki eina vopn Íslendinga, eins og Guðni bendir á. Aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu, NATO, reyndist ekki síður sterkt vopn eins og kom á daginn.
Mikilvægi Íslands
„Hernaðarmikilvægi Íslands í köldu stríði skipti geysilega miklu máli í hinu stóra samhengi. Bretar lágu ætíð undir ámæli á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Þeir fengu skilaboð þess efnis frá Washington að þeir mættu ekki láta fiskveiðihagsmuni ráða heldur horfa á hið stóra pólitíska samhengi. Fyrst sendu Bretar dráttarbáta á Íslandsmið til þess að veita togurum sínum vernd en það gaf ekki góða raun. Svo kom að því vorið 1973 að Edward Heath forsætisráðherra missti þolinmæðina og skipaði svo fyrir að nú skyldi taka upp herskipavernd. Sú varð raunin allt til loka þessara átaka, haustið 1973, þegar Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra og Edward Heath settust að samningaborði í London og náðu bráðabirgðasamkomulagi um takmarkaðar veiðar Breta innan 50 mílna lögsögu Íslands næstu tvö ár.“
Reglulega kom til átaka á miðunum og ásiglinga. Guðni bendir á að þetta hafi verið mikið hættuspil og hefði getað endað illa. Reyndar fór svo að Halldór Hallfreðsson, vélstjóri á varðskipinu Ægi, lést þegar hann fékk raflost við viðgerðir eftir ásiglingu bresku freigátunnar Apollo. Þetta var eina dauðsfallið sem rekja mátti til þorskastríðanna.
Guðni segir að saga landhelgismálsins og þorskastríðanna sé merkur þáttur í þjóðarsögu Íslendinga. Þetta sé saga þjóðar sem varð að eignast full yfirráð yfir auðlindum sjávar á Íslandsmiðum. Þetta sé saga sem við megum kunna og segja og vera stolt af. Þetta sé sigursaga.
Hiti í pólitíkinni
„En þetta er líka saga óeiningar og ágreinings um aðgerðir og aðferðir. Við megum ekki láta gleðina yfir sigrinum eða skilning á því hve nauðsynlegt það var að stíga þessi skref blinda okkur sýn og búa til einhverja helgisögu. Það var minn starfi áður en ég varð forseti að segja þessa sögu og segja hana þannig að við búum ekki til einhliða helgimynd af góðum Íslendingum sem voru einhuga allan tímann og heilagur réttur ávallt okkar megin. Vondu útlendingarnir hefðu ætíð haft vondan málstað að verja. Við eigum að vera þroskaðri en svo að halda fast í svo skekkta mynd af því sem gekk á. En að því sögðu réðust lyktir þessara átaka í og með vegna þess að okkar menn á varðskipunum urðu flestir fjandanum flinkari við að klippa. En annar þáttur þessarar sögu er auðvitað innanlandspólitíkin þar sem hver höndin gat verið upp á móti annarri. Lúðvík Jósepsson var sjávarútvegsráðherra í öðru þorskastríðinu og undirritaði reglugerðina um útfærslu lögsögunnar í 50 mílur. Hann ætlaði sér sannarlega ekki að skrifa upp á samkomulagið sem Ólafur Jóhannesson og Edward Heath gerðu. Það lá við stjórnarslitum. Lúðvík fordæmdi allt þetta samningamakk. Það væri hrein uppgjöf að gefa sjómílu eftir. Ólafur þurfti því að sæta harðri gagnrýni af hálfu Lúðvíks og annarra í Alþýðubandalaginu. Svo flækist sagan enn þegar við horfum til þess að árið 1961 sömdu íslensk stjórnvöld við þau bresku um að yrði lögsaga Íslands aftur færð út í framtíðinni mætti skjóta ágreiningi um það til Alþjóðadómstólsins í Haag. Það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem gerði þennan samning og þar á bæ áttu menn mjög erfitt með að líta svo á að hann gilti ekki. Geir Hallgrímsson, sem varð varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1971 og formaður tveimur árum síðar, átti erfitt með að tala máli sátta og málamiðlana. En það var þannig í allri sögu þorskastríðanna að sá stjórnmálamaður sem var baráttuglaðastur og vígreifastur átti auðveldast með að hrífa fólk með sér. Sá sem talaði máli samninga og sátta og hægfara leiðar að markmiðinu lá undir ámæli um aumingjaskap og nánast landráð. Svo mikill var hitinn í mönnum,“ segir Guðni.
Hetjur vorra tíma
Skipherrar íslensku varðskipanna voru þjóðhetjur á þessum árum og nutu þess fram yfir kafteina bresku freigátanna að þekkja Íslandsmið eins og lófann á sér, og vera með skip sem voru snör í snúningum. Freigáturnar gátu verið þunglamalegri.
„Ég talaði við fjölda foringja á freigátunum þegar ég viðaði að mér upplýsingum um landhelgismálið. Nánast hver einasti þeirra sagði við mig og hefði líka sagt við aðra í lok átakanna „no hard feelings“ upp á ensku. En flestir þeirra nefndu um leið að þeim fannst þeir vera á orrustuvelli sem þeir höfðu ekki fengið þjálfun í að berjast á. Og með báðar hendur bundnar fyrir aftan bak, eins og þeir sögðu. Þeir voru settir í þá stöðu að reyna að koma í veg fyrir togvíraklippingar en höfðu ekki tæki og tól til þess, nema þá fallbyssurnar. En í köldu stríði skýturðu ekki föstum skotum á varðskip vinaþjóðar í NATO. Aftur kemur þarna hernaðarmikilvægi Íslands við sögu. Við getum aldrei skilið hvers vegna við Íslendingar höfðum lokasigur í þessum átökum ef við sleppum því að skoða þann þátt sögunnar; hvernig Bretar gátu ekki beitt því afli sem þeir bjuggu yfir og hefðu getað beitt teldu þeir sig eiga í höggi við hreina og klára óvinaþjóð. Það þarf því að skoða þessa sögu í hinu stóra samhengi.“
Guðni segir að saga þorskastríðanna hafi aldrei sama sess á Bretlandi og hér á Íslandi. Fiskveiðar skiptu breskan þjóðarhag nánast engu máli. Fiskveiðar voru innan við 1% af þjóðarframleiðslu Breta. Menn hafi hins vegar áhuga á þessari sögu í hafnarborgunum Hull, Grimsby og Fleetwood í Englandi og Aberdeen í Skotlandi.
Betra að segjast vera frá Noregi
„Ég treysti mér þó til þess að segja það að þessi saga verður aldrei þannig sögð að okkur Íslendingum ætti að finnast það ámælisvert. Því er haldið til haga að bresk stjórnvöld voru oftar en ekki of sein að átta sig á ríkjandi straumum í alþjóðlegum hafrétti. Víð lögsaga strandríkis var það sem koma skyldi. Auðvitað skil ég að breskir ráðamenn hafi ekki viljað lúffa samstundis. Sú ákvörðun að senda herskip á Íslandsmið vorið 1973 var skammsýn að þessu leyti. Breskum togarasjómönnum mislíkaði það mest árin eftir þorskastríðin að þeim gekk lengi vel illa að fá bætur frá breskum stjórnvöldum sem þeir áttu rétt á. Það var hörð barátta og löng hjá þeim. Oftar en ekki er það líka viðkvæðið í Englandi að Bretar hefðu frekar átt að taka sér víðari lögsögu í stað þess að festast í viðjum Efnahagsbandalags Evrópu sem þá var. Það má vel vera að sá þáttur hafi haft einhver áhrif til dæmis í Hull og Grimsby á það hvernig fólk kaus í Brexit kosningunni 2016. Það hafi verið litið svo á að Bretar hefðu frekar átt að fara að fordæmi Íslendinga og taka sér víðari fiskveiðilögsögu í stað þess að festast í sameiginlegri fiskveiðistefnu EBE og síðar ESB.
En það er allt önnur og flóknari saga sem við Íslendingar skoðum bara úr fjarlægð. Ég hef notið þeirrar ánægju að fara á þessar slóðir og tala við sjómenn. Það ber enginn þar þungan hug til Íslendinga. En það var annað uppi á teningnum fyrstu árin eftir þessi átök upp úr 1976. Íslenskir sjómenn hafa sagt mér að þegar þeir fóru þá á pöbbinn í Hull og Grimsby hefði verið betra að segjast vera frá Noregi en Íslandi.“