Davíð Freyr Jónsson, útgerðarstjóri hjá Royal Iceland, segir að varúðartakmarkanir á leyfilegan afla af ígulkerjum í Breiðafirði, sem fyrst og fremst hafi verið settar á vegna þess hversu lítið sé vitað um tegundina, takmarki nýtingu þessarar auðlindar.

„Hafrannsóknastofnun hefur ekki sinnt mikið rannsóknum á ígulkerjum og það eru takmörkuð gögn sem gerir að verkum að við getum ekki nýtt auðlindinanema að takmörkuðu leyti,“ segir Davíð.

Spurður hvort hann telji að taka mætti meira af ígulkerjum úr Breiðafirði segir Davíð að menn verði að gæta sín og vera algjörlega vissir um að náttúran njóti vafans. Hins vegar myndu öryggisvikmörkin verða minni eftir því sem menn vissu meira og þar af leiðir yrði leyfður meiri afli.

Skortur á rannsóknum

„Þetta er bara eins og í þorski. Ef menn myndu sleppa togararallinu þá þyrfti að beita varúðarreglum eins og er gert í ígulkerjum, ég held að það myndi heyrast í mönnum ef aflamarkið myndi dragast saman um sextíu þúsund tonn vegna óvissu. Ítrustu reglur gera svo ráð fyrir að það gerist árlega þar til veiðar leggjast af,“ segir Davíð og vísar þar í reglur Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, sem Ísland tilheyrir.

Davíð Freyr Jónsson, útgerðarstjóri hjá Royal Iceland.
Davíð Freyr Jónsson, útgerðarstjóri hjá Royal Iceland.

Áhrifin eru þau að sögn Davíðs að útflutningur á ígulkerjum úr Breiðafirði hefur

farið minnkandi ár frá ári. „Vertíðin styttist og nýtingin á bátunum verður verri og það dregur úr öllum umsvifum í heild sinni – sem við Íslendingar þekkjum mjög vel en oftast er það vegna þess að lífríkið gefur eftir en ekki vegna þess að kröfurnar aukast,“ segir hann.

Þannig segir Davíð skort á rannsóknum á ígulkerjum hér við land vera útgerðunum dýrkeyptar.

Óraunhæf upplýsingaöflun

„Þetta er náttúrlega eðlilega og augljóslega mjög erfitt með litlar staðbundnar tegundir þar sem eru kannski minni hagsmunir undir fyrir ríki og samfélag að halda uppi stífum mælingum. Þar af leiðandi er nærri algerlega óraunhæft að halda uppi svona mikilli upplýsingaöflun fyrir svona litlar tegundir sem verður til þess að þær mæta algjörum afgangi. Afleiðingin er að það er stunduð undirveiði og undirnýting á tegundinni, markvisst og kerfislægt,“ lýsir Davíð stöðunni.

„Já, ef varúðarnálguninni er beitt nógu oft þá er það þannig,“ svarar Davíð spurður hvort ígulkerjaveiðin muni þá á endanum lognast út af.

Einn vandann segir Davíð vera að útgerðirnar og Hafrannsóknastofnunin skilji illa hver aðra. Stofnunin stundi ekki þær rannsóknir sem þyrfti að gera til að koma ígulkerjunum upp í eðlilega nýtingu og bilið á milli útgerða og stofnunarinnar virðist vera að aukast.

Stangast á við orð stjórnmálamanna og stofnana

„Við sem erum í nýsköpuninni, jaðrinum, mætum afgangi þegar það kemur að þessu hagsmunamati Hafrannsóknastofnunar. Ég skil það alveg að ákveðnu leyti en það stangast hins vegar á við flest orð bæði stofnana og stjórnmálamanna á Íslandi þegar það er talað um að blása eigi til sóknar í nýsköpun. Það fjarar einhvern veginn alltaf undan því þegar á reynir,“ segir Davíð.

Ígulker. Mynd/Royal Iceland
Ígulker. Mynd/Royal Iceland

Ígulkerin sem Royal Iceland veiðir fara að sögn Davíðs út um alla Evrópu, bæði lifandi en mest unnin. Til þess að tryggja vinnsluna og afurðaframboð betur í sessi segir Davíð Royal Iceland hafa keypt bátinn Eyja NK 4 í fyrra. Frá þeim viðskiptum var einmitt sagt frá í Fiskifréttum í byrjun ágúst í fyrra.

Með Eyja NK fylgja veiðiheimildir í sæbjúgum. Einar Hálfdánarson sem átti Eyja NK er áfram skipstjóri á bátnum og er að sögn Davíðs á ígulkerjum og sæbjúgum þar eystra og hefur gengið ágætlega.

Dýr eftirlitsmaður í árangurslausum leiðangri

„Þetta er náttúrlega alveg bullandi tilraunastarfsemi,“ segir Davíð um ígulkerjaveiðarnar fyrir Austurlandi. Slíkt sé kostnaðarsamt. Til dæmis hafi nýlega borist 400 þúsund króna reikningur frá Hafrannsóknastofnun fyrir eftirlitsmann sem fylgdi með í dagstúr í tilraunaveiði til að kanna nýtt veiðisvæði fyrir ígulker.

„Þannig að það að taka út eitt svæði kostaði 400 þúsund krónur. Og það kom reyndar í ljós að það fannst ekkert af nýtanlegum ígulkerjum og þar af leiðandi var þetta bara hreinn kostnaður,“ segir Davíð. Þarna sé um að ræða rannsóknakostnað sem leggist á frumkvöðlana.

„Þetta er orðið alveg einstaklega fráhrindandi og erfitt umhverfi að vinna í,“ segir Davíð og útskýrir að verkefni eins og það að finna ný veiðisvæði sé hvergi styrkhæft.

Styrkja ekki ígulkerjaleit

„Hjá flestum stóru sjóðunum okkar eins og  Rannís og Matvælasjóði er mikil áhersla á nýnæmi sem þýðir að þú verður að brjóta blað í sögunni á einhvern hátt, að vera að gera eitthvað nýtt. Það að leita að ígulkerjum á nýju svæði ber mjög lágan nýnæmisstuðul,“ segir Davíð.

Mest af þróuninni úti á sjó, þar sem verið sé að leita að nýtanlegum miðum, svæðum, tegundum og þvíumlíku, beri að jafnaði tiltölulega lágan nýnæmisstuðul. Verkefnasjóður sjávarútvegsins sá áður um að styrkja þróunarverkefni á sjó en hefur að sögn Davíðs ekki úthlutað styrkjum í langan tíma. Í sjóðinn safnist fé úr uppboðnum VS-afla á fiskmörkuðum.

Mest af þróuninni að utan

„Þessi vinna kallast frekar atvinnuþróun en nýsköpun – sem er almennt það sem við erum að reyna að gera í sjávarútvegi og á almennt erfitt með samkeppni við tæknigeirann af þessum sökum. Mest af þróuninni í sjávarútvegi kemur erlendis frá, einhvers konar tækniyfirfærsla þar sem við höfum tekið erlenda nýsköpun, hagnýtt og gert að okkar. Má þar nefna kítin, kollagen, plástur úr roði, veiðar á makríl, flestan vinnslubúnað og svo framvegis. Við eigum engar blaðsíður í vísindasögu heimsins en erum góð í þróun og hagnýtingu,“ segir Davíð.

Ígulkerjaveiðin hjá Royal Iceland á Austurlandi er að sögn Davíðs í Reyðarfirði, dálítið í Eskifirði, Norðfjarðarflóa og nýlega Seyðisfirði.

Enn vannýttar tegundir

„Og við höfum einnig veitt eitthvað í Berufirði. Það má finna einhverja veiði inn á flestum fjörðum, ekki öllum, en til að ígulkerin séu nýtanleg þarf að byrja á því að grisja svæðin. Hrognainnihaldið er oftast lágt þar sem þéttleiki er mikill. Í þessu er falinn mikill kostnaður,“ segir Davíð.

Royal Iceland er í ýmsum sjávarafurðum og aðspurður segir Davíð enn vera vannýttar tegundir hér við land.

„Við eigum langt í land með að fullnýta sjávarauðlindina. Þegar hvatarnir eru færri en hindranirnar þá tekur þróunin mun lengri tíma. Það er merkilegt hvað þetta er enn erfiður lærdómur.“