„Mér finnst koma til álita að auka við þær heimildir en mér finnst líka koma til álita .. að endurskoðað verði hvað þurfi til þess að geta fengið slíkar heimildir. Það er orðið þannig núna að verulegur hluti þeirra sem stunda strandveiðar er í störfum annars staðar og þetta er orðinn hluti af einhverju sporti,“ sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í viðtali á Samstöðinni 17. september síðastliðinn. Þar ræddi hún við Gunnar Smára Egilsson og Sigurjón Egilsson um málefni sjávarútvegsins.
Þar segist ráðherra vísa til umræðu meðal smábátasjómanna sjálfra sem segja ólíkt eftir hópum hvort menn stundi þessar veiðar fyrst og fremst til þess að byggja upp sína afkomu eða fyrst og fremst til þess að sinna áhugamáli sínu.
„Svo hefur verið á það bent að ekki sé nægilegt eftirlit með hvort einhverjir séu með fleiri en einn bát og fleiri en tvo og eru jafnvel með eitthvert leigufyrirkomulag. Vandinn er nefnilega sá að þá skiptast þessi 10.000 tonn sem hefur verið úthlutað síðastliðin ár, á fleiri. Og þeir sem eru sannarlega í þessu af lífi og sál, og eru trillukarlar og kerlingar af gömlu gerðinni, fá minna í sinn hlut.
Í viðtalinu er farið vítt og breitt um sviðið og það má finna hér.