Nýjasta lúxusfarþegaskip Norwegian Cruise Line í svokölluðum Prima Class, hið 3.200 manna Norwegian Prima, verður formlega gefið nafn í Sundahöfn í dag. Sú sem það gerir er guðmóðir skipsins, söngkonan Katy Perry, sem jafnframt treður upp með tónleika í skipinu í tengslum við nafngiftina. Þetta er í fyrsta sinn sem erlendu farþegaskipi er gefið nafn í Reykjavíkurhöfn.
Skipið lagðist að bryggju við Skarfabakka 25. ágúst og heldur utan á ný að athöfninni lokinni í dag.
Norwegian Prima er í jómfrúarsiglingu frá Southampton á Englandi. Það siglir undir bahamísku flaggi. Skipið er fljótandi lúxusveröld, 142.500 brúttótonn og tekur 3.215 farþega í tveggja manna klefa, er með 700 manna tónleikasal, gokart braut fyrir þá sem eru með bíladellu á tveimur hæðum, veitingastaði á öllum hornum á rúmlega 17 hæðum og svo má telja lengi áfram. Þetta er fyrsta skipið í Prima Class flokki Norwegian Cruise Lines en alls verða þau sex talsins. Fyrirtækið er nú með 18 skemmtiferðaskip í förum. Fyrsta áætlun skipsins nú er sigling frá Southampton til Amsterdam og þaðan til Reykjavíkur. Að sögn Gísla Jóhanns Hallssonar, yfirhafnsögumanns hjá Faxaflóahöfnum, er skipið með átta bókaðar komu til Reykjavíkur næsta sumar. Á heimasíðunni má sjá að tíu daga sigling aðra leið í júní 2023 frá Reykjavík með viðkomu á Ísafirði, Akureyri, Álasundi, Olden, Bergen, Amsterdam að lokaáfangastað í Southampton á Englandi, kostar 2.431 evru, eða um 340.000 ÍSK. Í október breytist áætlunin og siglir skipið þá frá New York til Bermuda og í Karabíska hafið frá Texas og Miami.
„Það komu með skipinu um 300 sérfræðingar á vegum skipasmíðastöðvarinnar. Þeirra hlutverk var að ganga úr skugga um að allur tæknibúnaður skipsins virki eins og hann á að gera. En engir almennir farþegar komu með skipinu. Svo fara héðan með skipinu boðsgestir,“ segir Gísli. Þetta mun mest vera fjölmiðlafólk sem sérhæfir sig í skrifum um ferðamál.
Gísli segir að verkefnið í kringum skipið hafi verið yfirdrifið fyrir Faxaflóahafnir. Fundarhöld hafa verið á hálfsmánaðar fresti frá því í september með skipafélaginu. Hérna hefur líka komið aðeins minna skemmtiferðaskip á vegum skipafélagsins sem heitir Norwegian Star.
Oft hefur verið bent á mikla loftmengun sem fylgi komu skemmtiferðaskipa hingað til lands. Gísli segir að miðað við það að hér er um glænýtt skip að ræða megi gera ráð fyrir að hægt verði að tengja það við rafmagn um landtengingu. Stefnt er að því að landtenging verði komin á á árinu 2024-2025. Hann segir að tekjur Faxaflóahafna af þessu einu skipi hlaupi á yfir tug milljóna króna en á móti komi líka kostnaður af hálfu hafnarinnar.