Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK, telur að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í karfa fyrir næsta fiskveiðiár standist ekki skoðun.
Í frétt á heimasíðu Brims segir Eiríkur:
„Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um karfakvóta næsta fiskveiðiárs er gjörsamlega galin. Fiskifræðingar leggja til 20% niðurskurð í gullkarfaveiðum næsta árs og segja að það sé vegna þess að veiðin sé bara borin uppi af tveimur árgöngum. Það er hreint bull. Samkvæmt okkar reglulegu prufum eru það sex til sjö árgangar sem eru uppistaða aflans, alveg eins og það á að vera.”
Þetta sagði Eiríkur í viðtali við heimasíðu Brims þegar skipið kom til hafnar í síðustu viku eftir stuttan túr með um 115 tonna afla.
„Við fórum á Fjöllin og vorum um tvo sólarhringa á veiðum. Aflinn var nokkurn veginn til helminga ufsi og gullkarfi og svo fengum við smávegis af öðrum tegundum með. Við vorum einir á svæðinu til að byrja með en skipunum tók að fjölga um það leiti sem við héldum til hafnar,” segir Eiríkur en hann segist ekki geta orða bundist vegna karfaráðgjafarinnar.
„Ég hef verið á togurum síðan 1975 og get fullyrt að karfinn er nú nánast alls staðar. Það hefur ekki alltaf verið svona og ég man eftir að hafa verið á fundi með fiskifræðingum eitt árið sem gullkarfastofninn var í lágmarki. Þá sagði helsti karfasérfræðingur Hafrannsóknastofnunar, sem nú er forstjóri sömu stofnunar, að við skyldum búa okkur undir mögur ár á karfaveiðunum næstu árin. Það þveröfuga gerðist. Karfastofninn rétti hratt úr kútnum og hefur verið sterkur allar götur síðan. Við tökum reglulega prufur og samkvæmt þeim erum við aðallega að veiða sex til sjö árganga. Við fáum alltaf eldri karfa en hann teljum við ekki með,” segir Eiríkur.
Eiríkur telur að verði tillögur Hafrannsóknastofnunar að veruleika þá sé ljóst að togaraflotinn verði bundinn við bryggju í a.m.k. tvo mánuði á ári.
„Það er búið að loka 90% af okkar gömlu heimamiðum á undanförnum árum. 20% skerðing nú á gullkarfann er reiðarslag fyrir margar útgerðir. Ég fæ ekki séð að við getum veitt ufsann ef þessar tillögur verða að veruleika. Bara hjá því félagi, sem ég vinn hjá, er boðuð skerðing um 1.500 tonn af gullkarfa á næsta ári. Það er ársafli eins togara. Nógu slæmt er ástandið varðandi karfakvótann í ár. Margir hafa brugðist við því með að stækka möskvann í pokanum í 155 millimetra, t.d. á veiðum á Halanum, en það þýðir að karfinn kemst út úr trollinu með möskvasmugi. Það getur seint talist sérstaklega góð umgengni um auðlindina,” segir Eiríkur.