Kap II VE-7 aflaði mest allra netabáta landsmanna á árinu 2023 og munaði umtalsverðu á Kap og Bárði SH-81 sem var næstaflahæstur netabáta.

Á árinu 2022 var Bárður aflahæstur netabáta en Kap II kom þar á eftir en á nýliðnu ári höfðu bátarnir sem sagt sætaskipti. Í næstu þremur sætum eru sömu bátar í sömu röð 2022 og 2023. Sagt er frá þessu á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Vinnslustöðin á Kap II, reyndar eina bátinn sem gerður er út á netaveiðar frá Vestmannaeyjum og í þeim efnum útgerðarsögu Eyjanna og landsins alls er sannarlega af sem áður var.

Vinnslustöðin gerði líka út Brynjólf VE á net en lagði honum á árinu 2022 og seldi til niðurrifs í Belgíu. Brynjólfur var engu að síður í 7. sæti á lista yfir aflahæstu netabáta árið 2022 og lauk þar með sögu sinni á Íslandsmiðum.

Á síðasta ári var heildarafli Kap 2.790 tonn í 68 löndunum og í næstu sætum kom Bárður SH með 1.891 tonn í 72 löndunum og Þórsnes SH með 1.787 tonn í 47 róðrum. Tölurnar sem Vinnslustöðin vitnar í eru fengnar af fréttavefnum www.aflafrettir.is.

Kap II man tímana tvenna

„Kap VE II er langelsta skipið í flota Vinnslustöðvarinnar og hefur frá árinu 2017 verið á netaveiðum á okkar vegum á vetrarvertíðum. Skipið á þá sögu í grófum dráttum að vera smíðað í Stálvík 1967 og hét upphaflega Óskar Magnússon AK-177,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar.

Sverrir Haraldsson, sviðstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar.
Sverrir Haraldsson, sviðstjóri botnfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar.

„Árið 1976 keypti Bessi sf. skipið til Vestmannaeyja, félag Einars Ólafssonar skipstjóra og Ágústs Guðmundssonar vélstjóra. Í apríl 1987 eignaðist Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum Kap, fyrirtæki sem ásamt fleirum sameinuðust síðar undir merkjum Vinnslustöðvarinnar.

Kap VE á sér fortíð á síldveiðum og loðnuveiðum og skipið sjálft hefur tekið ýmsum breytingum í tímans rás, til að mynda verið bæði lengt og fengið nýja yfirbyggingu.

Sjálft útgerðarmynstrið hefur ekki síður tekið breytingum. Netabátar voru áður gerðir út í tugatali frá Vestmannaeyjum en nú er Kap hér ein eftir á netum.

Sömu sögu er að segja annars staðar á landinu. Þar er helst að nefna nokkra staði á Suðurnesjum, Snæfellsnesi og á Norðurlandi þar sem netaveiði er enn stunduð í einhverjum mæli.“