Skip Vísis í Grindavík, línuskipin Páll Jónsson GK og Sighvatur GK ásamt togaranum Jóhönnu Gísladóttur GK, hafa öll landað í byrjun þessarar viku.

Jónas Ingi Sigurðsson á Páli Jónssyni lét vel af sér í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar en Páll landaði 125 tonnum í Grindavík á mánudag.

„Menn voru þokkalega sáttir við aflabrögðin. Við byrjuðum á Kötlugrunni og lögðum þar einu sinni en síðan var haldið í Meðallandsbugt og þar lagt tvisvar sinnum. Þá var lagt við Eyjar og loks á Selvogsbankanum. Þetta voru samtals fimm lagnir. Við reyndum að blanda þetta eins og mögulegt var en 45% af aflanum var þorskur. Besta blandan fékkst undir lokin á Selvogsbankanum. Það eru allir að reyna að blanda aflann en það gengur misjafnlega. Það verður haldið til veiða á ný strax að löndun lokinni,” sagði Jónas Ingi.

Sighvatur kom til Grindavíkur í gær og landaði þar rúmlega 70 tonnum. Veðrið í veiðiferðinni var slæmt og aflabrögðin ekki nægilega góð að sögn Óla Björns Björgvinssonar skipstjóra.

„Við vorum á sífelldum flótta vegna veðursins. Við byrjuðum í Meðallandsbugtinni, þaðan var flúið í Háfadýpið og síðan var lagt við Hraunhausinn og Lúsablettinn í kolvitlausu veðri. Þaðan var haldið og lagt sunnan við Selvogsbankahraun en þar fékkst lítið. Vegna veðursins var þetta heldur leiðinlegur túr en það verður áreiðanlega betra veður næst,” sagði Óli Björn.

Jóhanna Gísladóttir landaði fullfermi í Hafnarfirði á mánudaginn. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri sagði að vel hefði gengið að veiða.

„Aflabrögðin voru ágæt en það var kaldafýla allan túrinn. Aflinn fékkst á tveimur sólarhringum en hann er mest ýs og síðan þorskur og steinbítur. Við vorum að veiðum í grunnkantinum vestur af Látrabjargi og á Anfield. Það stóð til að landa í Grindavík en suðvestan brælan gerði það ókleift þannig að við lönduðum í Hafnarfirði,” sagði Einar Ólafur.