Verið er að mála og yfirfara Júpiter VE í slippnum í Reykjavík þessa dagana. Skipið er stórt og glæsilegt og mörgum í minni sem Jóna Eðvalds SF-200. Skinney-Þinganes sem gerði skipið út seldi það til Horneyjar ehf. í Vestmannaeyjum í byrjun árs. Það var selt án aflahlutdeildna sem voru fluttar á önnur skip Skinneyjar-Þinganes. Fiskifréttir sögðu frá þessu í janúar og þá kom fram að kaupverðið var 400.000.000 kr. án veiðarfæra. Bæjarráð Hornafjarðar gerði ekki athugasemdir við söluna og nýtti sér ekki forkaupsrétt á því.
Horney ehf. er fyrirtæki sem skráð var í desember á síðasta ári og er í fyrirtækjaskrá sagt fást við leigu á búnaði til flutninga á sjó- og vatnaleiðum.
Ágætt að eiga varaskip
„Þetta er félag í sameiginlegri eigu Skinneyjar-Þinganess og Ísfélagsins,“ sagði Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins, sem ásamt Aðalsteini Ingólfssyni, forstjóra Skinneyjar-Þinganess, er skráður eigandi Horneyjar.

„Horney mun eiga Jónu Eðvalds sem mun fá nafnið Júpiter VE. Hugmyndin er að þetta félag eigi skipið sem verði síðan gert út til skiptis af eigendum félagsins, það er að segja Ísfélaginu og Skinney-Þinganesi. Þetta er hagræðing má segja; í staðinn fyrir að vera með tvö skip þá erum við með eitt skip saman. Það er ágætt að eiga varaskip ef menn lenda í stórum kvótum eða ef upp koma einhverjar óvæntar aðstæður,“ sagði Stefán í frétt Fiskifrétta.