Þann 27. janúar síðastliðinn voru liðin 65 ár frá því að hið sögufræga varðskip Óðinn kom til Íslands. Þessa atburðar hafa bæði hollvinir og velunnarar Óðins minnst á samkomum. Meðal þeirra er Jón Páll Ásgeirsson sem var stýrimaður á Óðni um skeið og einnig áður á öðrum varðskipum Landhelgisgæslunnar; Ægi og Baldri.
![„Myndin af mér við teligrafið í brúnni á Óðni er tekin í Smugunni þegar við vorum þar. Við fórum tvær ferðir í Smuguna á Óðni, 200 til 300 sjómílur norður af Noregi. Fyrri ferðinn var um tveir mánuðir, með lækni um borð og varahluti. Það var krefjandi að vera þar, mjög lélegt samband á talstöðinni og ekkert útvarp. Sumir í áhöfninni voru orðnir ansi pirraðir og leiðir í restina,“ segir Jón Páll Ásgeirsson.](http://vb.overcastcdn.com/images/141087.width-500.jpg)
Við ræddum við Jón Pál í tilefni þessara tímamóta. Með greininni fylgja myndir sem hann tók er hann var í áhöfn Óðins.
Er snjóflóðin féllu á Súðavík 16. janúar 1995 og á Flateyri þann 26. október sama ár var Jón Páll yfirstýrimaður á Óðni. Áhöfnin var send með varðskipið til aðstoðar á Flateyri. Þá var Kristján Jónsson skipherra en þeir Jón Páll höfðu áður verið saman á varðskipinu Baldri í þorskastríðinu.
Byrgt fyrir glugga á leið til Flateyrar
„Við vorum fyrir sunnan Snæfellsnes og fengum boð um að fara í Grundarfjörð að ná í björgunarfólk og fórum þangað í alveg vitlausu veðri. Við fengum brot á okkur og misstum einn björgunarbát út þegar við vorum að fara fyrir nesið,“ rifjar Jón Páll upp.
Í Grundarfirði segir Jón Páll að heilmikill mannskapur hafi komið um borð. Stefnan hafi síðan verið sett vestur á firði.
„Það var svakalegt veður á leiðinni. Þegar við fórum fyrir Bjargtangana þá voru settir stálhlerar fyrir brúargluggana. Það voru smá rifur á þessum hlerum en við sáum ekkert út heldur var siglt eftir radar,“ segir Jón Páll sem vill þó ekki taka svo djúpt í árinni að segja að ferðalagið vestur hafi verið tvísýnt. „En þetta voru helvítis læti, mikill sjór og eiginlega fárviðri.“
Skiljanlega átti björgunarfólkið sem kom um borð í Grundarfirði ekki sjö dagana sæla á þessari siglingu. „Þeir voru nú ekki upp á sitt besta,“ svarar Jón Páll spurður um ásigkomulagið á hópnum.
Súper-Babúarnir lágu
„Það voru sér þjálfaðir karlar frá slökkviliðinu og þeir fengu að vera í stýrimannsherberginu hjá mér uppi á gangi. Við kölluðum þá Súper-Babúana. Þeir lágu í herberginu eins og hráviður,“ segir Jón Páll. Óðinn hafi hins vegar verið mjög gott sjóskip og ekkert upp á það að klaga í þessum leiðangri. „En það urðu smáskemmdir. Það voru brimbrjótar við hliðina á byssupallinum sem bognuðu. Þetta var alveg rosalegt veður.“
![Er Hollvinir Óðins hittust á dögum til að minnast komu skipsins til landsins fyrir 65 árum var Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, meðal gesta og hélt hann tölu. MYND/JÓN PÁLL ÁSGEIRSSON](http://vb.overcastcdn.com/images/141093.width-500.jpg)
Að sögn Jóns Páls er ávallt farið grunnt við Bjargtanga þegar veður eru vond. „Þá er farið sem næst landinu og þá sleppur maður mikið meira við sjóganginn. Það gekk mjög vel og við fórum inn á Flateyri og lögðumst við bryggju. Þarna vorum við í nokkra daga,“ segir Jón Páll.
Allir sem lentu undir snjóflóðinu voru fundnir þegar Óðinn kom til Flateyrar að því er Jón Páll segir. „Við vorum með teymi frá Landspítalanum sem veitti það sem núna er kallað áfallahjálp. Björgunarfólkið kom og borðaði hjá okkur. Það var verið að vinna þarna í ýmsu og allt var þetta dálítið sérstakt.“
Flotkví á reki á opnu hafi
Áhöfnin á Óðni lenti í fleiri erfiðum verkefnum í tíð Jóns Páls um borð. Er verið var að flytja hina stóru flotkví Orms og Víglundar yfir hafið til Íslands í apríl 1998 losnaði hún úr togi dráttarbáts.
![Fjölmenni var mætt í Hafnarfjarðarhöfn þegar varðskipin Óðinn og Ægir komu þangað með flotkví Orms og Víglundar í togi eftir að hún hafði losnað frá dráttarbáti á leið yfir hafið. MYND/JÓN PÁLL Ásgeirsson](http://vb.overcastcdn.com/images/141095.width-500.jpg)
„Dráttarbáturinn náði henni ekki aftur og gafst upp og við vorum sendir til þess að hjálpa. Þeir gátu náð vírnum og byrjað að draga aftur og við fórum bara upp að landi. En þá slitnaði aftur og við fórum aftur út og lentum í miklu brasi að koma mannskap um borð í kvína til að taka á móti vírum til þess að geta dregið hana,“ segir Jón Páll.
Þegar áhöfnin á Óðni hafði loks náð kvínni í tog reyndist hún of stór og þungur biti fyrir Óðin sem er innan við eitt þúsund tonn en kvíin um tíu þúsund tonn. Því var varðskipið Ægir fengið á vettvang.
„Ægir setti spotta í okkur að framan og við drógum kvína tveir til Hafnarfjarðar. Þegar við komum þangað var eins og á Sjómannadaginn, það var svo mikið af fólki á bryggjunum,“ segir Jón Páll.
Reyndist vel í alla staði
Mjög gott var að vera um borð í Óðni segir Jón Páll sem kveður skipið hafa reynst vel í alla staði „Mér leið alltaf langbest í Óðni af þessum varðskipum. Mér fannst Óðinn einhvern veginn alltaf fara best með mann. Og það voru fínir karlar þarna og það var góður andi.“
Mikið björgunarafrek
Hilmar Bragi Bárðarson hefur gert sjónvarpsþátt um björgunina á flotkvínni. Átti hún að vera á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar um páskana 2023. Rekstri stöðvarinnar var hins vegar hætt skömmu áður og lagði Hilmar Bragi þá þátt sinn inn á Youtube þar sem hann er enn. Í kynningu á þættinum á Youtube segir eftirfarandi:
„Aldarfjórðungur er liðinn frá því varðskipsmenn á Óðni og Ægi unnu mikið björgunarafrek þegar flotkví í eigu Vélsmiðju Orms og Víglundar var bjargað í tvígang. Fyrst djúpt suður af landinu og svo síðar vestur af landinu. Hér verður sagan sögð. Árið er 1998. Skömmu fyrir miðnætti þriðjudaginn 7. apríl barst beiðni til varðskipsins Óðins, frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um að varðskipið héldi til aðstoðar dráttarbátnum Anglian Earl við að ná aftur dráttartaug bátsins, sem hann hafði misst frá sér við drátt á stórri flotkví, frá Skotlandi til Hafnarfjarðar. Flotkvíin er engin smásmíði. Er 140 metra löng, sextán og hálfur á breidd og ristir þrettán metra. Svo er lyftigetan 13.500 tonn.“
Fjölmenni tók á móti Óðni
Á Facebook-síðunni Safnfræðsla Borgarsögusafns er þess minnst að Óðinn kom til hafnar á Íslandi í fyrsta sinn fyrir 65 árum: „Í dag, 27. janúar eru 65 ár síðan að varð- og björgunarskipið Óðinn kom til landsins. Á þessum degi fyrir 65 árum var fjöldi fólks komið saman við Ingólfsgarð í miðbæ Reykjavíkur, þar sem skipið lagðist loks að um kl. 2 eftir hádegi, eftir að hafa komið að ytri höfninni um hádegið. Siglingin frá Álaborg í Danmörku tók alls um þrjá sólarhringa þar sem skipið var smíðað. Þegar það lagðist upp að Ingólfsgarði var búið að skreyta skipið fánum, stafna á milli ásamt Þór og Albert,“ segir í færslunni þar sem jafnframt er bent á að 1. mars verði skipið opnað fyrir skólaheimsóknum á ný.