Hilmir Svavarsson framkvæmdastjóri hjá iTUB segir að hugmyndin að nýju og léttara fiskikari hafi komið fyrir nokkrum árum og frá þeim tíma hafi þróunardeild Sæplasts unnið að hönnun kersins.
„Nýja 460 lítra ECO kerið er 42 kg, eða 8 kílóum léttara en eldra kerið sem við höfum leigt til viðskiptavina okkar á Íslandi frá árinu 2014. Við hjá iTUB höfum notað PE kerin frá Sæplasti undanfarin 15 ár með góðum árangri. Fyrstu kerin fóru til viðskiptavina okkar í Noregi árið 2009 og mörg þessara kera sem komu á þessum tíma eru enn í leigukerfinu okkar. Viðskiptavinir okkar hafa verið ánægðir enda kerin bæði örugg og endingargóð“ segir Hilmir.
Hann segir að nýsköpun og fjárfesting séu mikilvæg forsenda árangurs í íslenskum sjávarútvegi. Fiskikerin spili stórt hlutverk þegar komi að því að viðhalda gæðum aflans, bæði á sjó og í flutningi.
Það er því mikilvægt að halda áfram að þróa nýjar gerðir af kerum sem skila útgerðinni enn betri gæðum á sjálfbærari hátt en áður. Nýju ECO kerin passa vel inn í hringrásarmódelið okkar þar sem kerunum er deilt á meðal viðskiptavina okkar.
Léttara ker með sama styrk
Við þróun nýja ECO kersins var horft til árangurs eldri fiskikera iTUB þar sem bæði styrkur og ending hefur verið framúrskarandi. „Sem dæmi um endingu þá sýnum við ker með framleiðslunúmerið 5 á íslensku sjávarútvegsráðstefnunni sem verður seinna í vikunni. Ker #5 var framleitt á Dalvík árið 2009 og hefur verið í stanslausri vinnu fyrir viðskiptavini okkar síðan þá, bæði á Íslandi og í Evrópu.“ Á undanförnum 15 árum hefur karið flutt um 101 þúsund kg af fiski og farið 448 ferðir, annað hvort á sjó eða notað til að flytja fisk á erlenda markaði. Á þessum tíma hefur kerið verið lagað 4 sinnum til að lengja líftíma þess og styrk. Nú verður ker #5 sent í endurvinnslu þar sem endurvinnsluefnið sem kemur frá kerinu mun fara í ný ECO sem Sæplast er að framleiða fyrir okkur á Dalvík.
25 ára þróun
Arnar Snorrason framkvæmdastjóri Sæplast í Evrópu segir að nýja ECO kerið sé þróað á grunni eldra PE kera sem hafa staðist allar þær kröfur sem við gerðum til þeirra þegar framleiðsla á polyethelene (PE) kerja hófst á Dalvík fyrir um 25 árum. Þá horfðum við til þess að kerin yrðu endurvinnanleg að líftímanum loknum. Það var einn af stórum kostum þessara kera, auk styrks þeirra og langs líftíma.
„Hönnunarteymi okkar á mikið hrós skilið, en nýja ECO kerið er 8 kg léttara en eldri PE ker sem við höfum afhent iTUB fram að þessu. Þessi nýja hönnun hefur staðist allar prófanir sem framkvæmdar voru í tilraunatækjum okkar á Dalvík og gefur eldri hönnun ekkert eftir er varðar styrk.“
Framleidd með raforku
Nýju ECO kerin eru framleidd í framleiðsluofni á Dalvík sem er knúin með rafmagni enda stefnum við á að öll okkar keraframleiðsla verði knúin með umhverfisvænni orku í stað olíu líkt og svo algengt er í þessum geira segir Arnar. „Með þessu erum við að mæta sífellt auknum kröfum viðskiptavina okkar um umhverfisvænan framleiðslumáta.“
„Með því að framleiða ker sem eru að fullu endurvinnanleg erum við að aðstoða viðskiptavini okkar að ná sjálfbærnimarkmiðum sínum. Ker sem við framleiðum í dag eru líkleg til að haldast í fullum rekstri næstu 12-15 árin. Á þessum tíma er hægt að lengja líftíma þeirra með viðgerðum en í lokin verður þessum kerum aftur komið í hringrásina þar sem þau verða kurluð og notuð aftur í ný ker. Með þessu næst hringrás sem dregur úr auðlindanotkun.“
ECO kerin loka endurnýtingarhringnum
„Það sem gerir þessi ker sérstök er að nú erum við að nota hluta af plastinu, endurvinnsluefninu, sem kemur frá eldri kerjum sem vorum framleidd fyrir 12-15 árum og hafa nú lokið hlutverki sínu. Það er hluti af hringrásarhagkerfinu, að framleiða sterka vöru sem dugar lengi. Þannig er hægt að laga til að lengja líftímann,“ segir Hilmir.
„Sæplast er að hefja framleiðslu á nýju ECO kerunum. Í dag eru yfir 60.000 PE ker í notkun um alla Evrópu sem hafa reynst vel. Fiskikerin skipa stóran þátt í þeirri verðmætasköpun sem hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi síðustu áratugi. Kerin eru vel einangruð sem þýðir að hráefnið heldur gæðum sínum lengur, hvort sem það er á fiskimiðum eða í flutningi á ferskum fiski á erlenda markaði. Nýju kerin verða áfram einangruð með PE plastinu sem er sama plast og er notað í ytra byrði kersins. Þetta þýðir að kerið er að fullu endurvinnanlegt. Við hjá iTUB erum spennt að vinna með útgerðum landsins með nýju og léttara keri sem heldur áfram að auka virði aflans,“ segir Hilmir.