Vinnsla hófst í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í morgun á íslenskri sumargotssíld sem veidd var fyrir vestan land. Það var síld úr Vilhelmi Þorsteinssyni EA sem kominn var með 1.370 tonn. Birkir Hreinsson skipstjóri segir að þetta sé dæmigerð íslensk síld.
„Þetta er 280-300 gramma síld. Við fengum aflann í fimm holum en dregið var í 4-6 tíma. Þetta byrjaði ágætlega og ég held að þetta líti ágætlega út. Um tíma var mikið að sjá á miðunum en það hefur eitthvað breyst. Nú virðist vera heldur erfitt að sjá hana á daginn og hún stendur djúpt á nóttunni. Þetta er þó ekki alveg að marka ennþá því það hafa verið fáir bátar á miðunum,” segir Birkir á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Beitir NK var kominn með tæp 1.100 tonn í morgun og var á síðasta holi. Að sögn Herberts Jónssonar stýrimanns var Beitir einn á miðunum í gær í ágætu veðri. Barði NK mun halda til síldveiða vestur fyrir land í dag.