Útgerðarfyrirtækið Brim, Háskóli Íslands, Faxaflóahafnir og Eimskip eru á meðal átta þátttakenda í fjölþjóðlegu verkefni sem ætlað er að styðja við orkuskipti í haftengdri starfsemi, þar með talið sjávarútvegi og sjóflutningum.
Þetta kemur fram á vefsíðu Brims þar sem segir að verkefnið sem beri nafnið STORM (System Transition to Renewable Marine Fuels in the Nordics from a Supply Chain Perspective) sé að hluta fjármagnað af Nordic Energy Research. En í heildina sé það fjármagnað af fimm rannsóknarstofnunum og átta hagsmunaaðilum. Auk fyrrnefndra íslenskra aðila séu þátttakendur frá Svíþjóð og Færeyjum. „Allir eru þeir með mismunandi hagsmuni af verkefninu,“ segir á brim.is.
Greina hindranir og hvata til orkuskipta
Áætlaður kostnaður við STORM verkefnið er sagður verar 944.000 evrur, sem svarar til tæplega 140 milljóna króna. Verkefnið hafi byrjað seint á árinu 2024 og áætlað sé að það standi yfir fram að árinu 2027.
„Nálgun verkefnisins er heildræn en skoða á orkuskipti í þessum geirum í ljósi orkuskipta í öðrum geirum og framleiðslu á öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti. Verkefnið mun leggja mat á möguleika á innlendri framleiðslu eldsneytis sem og aukna skilvirkni í notkun orku í haftengdri starfsemi og bera saman möguleika, með áherslu á hagrænar og umhverfislegar víddir. Hindranir og hvatar til breytinga verða greindir og bent á nauðsynlegar aðgerðir stjórnvalda til að raungera orkuskipti í haftengdri starfsemi,“ segir á vefsíðu Brims.