Íslandsmeistarmót í snocross verður haldið á hafnarsvæðinu norðan við fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík eftir tvo mánuði. í snocross er keppr á vélsleðum,
Þetta kemur fram í fundargerð byggðaráðs Dalvíkurbyggðar sem gaf samþykki fyrir keppnishaldinu.
„Í undirbúningi og meðan á keppni stendur verður snjó safnað á svæðið og úr honum dreift til að mynda keppnishring. Áhorfendasvæði verða sett upp og öryggissvæði skilgreint samkvæmt snocross reglum MSÍ sem eru meðfylgjandi. Leitað verður samráðs og sótt um leyfi til lóðarhafa á svæðinu. Samherji hefur þegar samþykkt staðsetningu fyrir sitt leyti,“ segir í fundargerð byggðaráðsins sem tók fyrir umsókn sem barst í nafni Miðgarðs Aktursíþróttafélags og MSÍ, Mótorhjóla- og snjósleðasambands Íslands.
Byggðaráðið setti í samþykki sínu fyrirvara um jákvæða umsögn slökkviliðs Dalvíkurbyggðar, hafnarstjóra og lóðarhafa á svæðinu, auk leyfis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Áskilið er að mótshaldarar gangi vel um og gangi frá svæðinu að móti loknu.