Mikill framgangur hefur orðið í kortlagningu hafsbotnsins í kringum Ísland sem er eitt af viðfangsefnum Hafrannsóknastofnunar. Jarðfræðingurinn Davíð Þór Óðinsson hefur umsjón með þessu átaksverkefni, sem hófst 2017 og stendur til 2029. Ísland stendur mjög framarlega á alþjóðlegum vettvangi þegar kemur að kortlagningu hafsbotns í eigin lögsögu en Írland stefnir á að ljúka þessu verkefni í sinni lögsögu árið 2026.

Markmiðið er að mæla allan hafsbotninn innan efnahagslögsögu Íslands. Það er unnið í samstarfi við Landhelgisgæsluna sem mælir hafsbotninn þar sem hann er grynnri en 100 metrar. Rætt var við Davíð Þór í Fiskifréttum í janúar 2021. Var þá búið að kortleggja um þriðjung hafsbotnsins en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Davíð Þór segir að það nýtist á fjölmarga vegu að hafa hafsbotninn kortlagðan. Hagsmunaaðilar, jafnt innlendir sem erlendir, sækja í gögnin m.a. vegna kortlagningar búsvæða sjávarlífvera, vegna mannvirkjagerðar eins og byggingu vindmyllugarða, skipulagningu fyrir lagningu sæstrengja og efnistöku af hafsbotni. Gögnin nýtast einnig í tengslum við siglingaöryggi, rannsóknir í tengslum við loftslagsmál og markmið Sameinuðu þjóðanna um verndun 30% af hafsvæðum heimsins fyrir árið 2030, svokölluð 30×30 markmið.

Í 46% í lok árs 2023

„Í byrjun árs 2021 höfðum við mælt 35,3%. Það ár fórum við í tvo leiðangra. Við mældum lítið svæði austan við Reykjaneshrygg á mjög miklu dýpi og einnig feiknastórt svæði á Íslands-Færeyjahryggnum. Samtals voru þetta 39.000 ferkílómetrar. Í lok árs höfðum við því mælt 40,5% af hafsbotninum í kringum Ísland. Árið 2022 fórum við líka í tvo leiðangra. Sá fyrri var í júní og þá mældum við stórt svæði í Vesturdjúpi sem er rétt vestan við Reykjaneshrygginn. Í framhaldinu mældum við tvö lítil svæði á landgrunninu við Grænlandssund, og þriðja á Selvogsbanka sunnan við Reykjanesskaga. Alls voru þetta 28.000 ferkílómetrar og heildarframgangur verkefnisins kominn í 44,3%. 2023 mældum við aðallega suðaustur af landinu. Við mældum á landgrunninu á Selvogsbanka og nágrenni hans. Til stóð að fara aftur á Íslands-Færeyjahrygginn en þurftum að hætta við það vegna bilunar í tækjabúnaði í Árna Friðrikssyni,“ segir Davíð Þór. Bilunin gerði það að verkum að seinni leiðangrar féllu einnig niður 2023. Engu að síður náðist að mæla um 13.000 ferkílómetra og heildarframgangur Hafrannsóknastofnunar kominn í 46%.

Myndunarferli V-laga hryggja er mjög  umdeilt en tengist flóknu samspili  heitareitsins og gliðnun rekbeltisins. Myndir/Hafrannsóknastofnun
Myndunarferli V-laga hryggja er mjög umdeilt en tengist flóknu samspili heitareitsins og gliðnun rekbeltisins. Myndir/Hafrannsóknastofnun

Yfirlit yfir það svæði í efnahagslögsögu Íslands sem hefur verið mælt.
Yfirlit yfir það svæði í efnahagslögsögu Íslands sem hefur verið mælt.

V-laga hryggir og HMS Rajputana

„Við fórum á fulla ferð í verkefnið aftur í byrjun árs. Í apríl mældum við svæði vestur af Íslandi. Þetta er svæði sem sýnir mjög sérstakt jarðfræðilegt fyrirbæri sem kallast V-laga hryggir. V-laga hryggir eru nokkrir sitt hvorum megin við Reykjaneshrygginn, myndunarferli þeirra er mjög umdeilt en tengist flóknu samspili heitareitsins og gliðnun rekbeltisins. Þessi sem við mældum í apríl hefur myndast í ~13 milljón ára gamalli hafskorpu sem hverfur svo undir landgrunnið.“

Í framhaldinu fikraði leiðangurinn sig upp á landgrunnið vestur af Snæfellsnesi og var á slóðum þar sem staðsetning var þekkt fyrir skipsflak. Leiðangurinn sá þar móta fyrir vopnaða kaupskipinu HMS Rajputana sem var skotið niður 13. apríl 1941.

Mælt í kringum Ægishrygg

Í ágúst var seinni leiðangur ársins fyrir austan land. „Þarna mældum við gríðarstórt gljúfur, svokallaðan Ægishrygg. Ægishryggur er kulnaður rekhryggur sem varð til þegar Grænland og Noregur fóru að reka hvort frá öðru og Norður-Atlantshafið opnaðist fyrir rúmlega 55 milljónum ára. Fyrir 25 milljónum ára dó virkni hryggjarins út og færðist yfir á Kolbeinseyjarhrygginn. Samtals voru kortlagðir 10.000 ferkílómetrar á þessu svæði.“

Myndin sýnir Ægishrygg sem er kulnaður rekhryggur sem varð til þegar Grænland og Noregur  fóru að reka hvort frá öðru og Norður-Atlantshafið  opnaðist fyrir rúmlega 55 milljónum ára.
Myndin sýnir Ægishrygg sem er kulnaður rekhryggur sem varð til þegar Grænland og Noregur fóru að reka hvort frá öðru og Norður-Atlantshafið opnaðist fyrir rúmlega 55 milljónum ára.

Frá 2000 til 2024 hefur Hafrannsóknastofnun kortlagt 48,9% hafsbotnsins í íslenskri efnahagslögsögu. Til viðbótar þessu eru fjölgeislamælingar Landhelgisgæslunnar frá árinu 2002 til 2016 á grunnu vatni og gögn frá frönsku sjómælingastofnuninni úti fyrir norðaustanverðu landinu. Samtals stendur þetta undir kortlagningu á 53% af hafsbotni efnahagslögsögu Íslands. Hafrannsóknastofnun hefur fjármagn til úthaldsdaga til ársins 2029. Þá er úrvinnsluþátturinn að talsverðu leyti eftir og á Davíð Þór von á því að unnið verði úr gögnum eitthvað fram yfir 2029. Hafrannsóknastofnun er að meta notagildi og hagkvæmni þess að fá fjarstýrðan bát sem má t.d. nota við bergmálsmælingar á uppsjávarfiskum. Þar er meðal annars verið að horfa til reynslu Norðmanna en norska hafrannsóknastofnunin tók í notkun tvo slíka báta fyrir ári síðan. Bát af þessu tagi mætti útbúa með fjölgeislamæli sem dregur niður að 600 metra dýpi en er með mun hærri upplausn. Stærsti hluti þess sem enn á eftir að mæla og kortleggja er landgrunnið. Davíð Þór segir að þessi tækni væri góð leið til að halda verkefninu áfram og sérstaklega til að kortleggja landgrunnið. Næstu fjögur ár, eða fram að 2029, er stefnt að því að mæla 25.000 ferkílómetra á ári að jafnaði. Miðað við þær forsendur er raunhæft að áætla að um það bil 65-68% af hafsbotni efnahagslögsögunnar hafi verið mæld.