Mikil verðmæti eru að verða til hjá fyrirtækjum í uppsjávarveiðum og -vinnslu þessa dagana þegar loðna með 100% hrognaþroska mokveiðist í Faxaflóanum. Skipin hafa ekki undan að fylla sig, sigla inn til löndunar og halda á ný á miðin. Á þessari vertíð Ísfélag Vestmannaeyja veitt um 40 þúsund tonnum af loðnu og unnið úr um 7 þúsund tonnum í hrognafrystingu.

Björn Brimar Hákonarson, framleiðslustjóri hjá Ísfélaginu, hafði í mörgu að snúast þegar rætt var við hann um stöðuna í veiðunum og vinnslunni. Nýbúið var að landa úr Álsey og löndun að hefjast úr Heimaey. Skipin koma ekki öðruvísi í land en með fullfermi. Mjög góð veiði hefur verið á vertíðinni og auðvelt verið að ná í loðnuna.

„Við höfum verið vestast í göngunni og reynum alltaf að þar sem loðnan er mest þroskuð til þess að ná hrognunum. Það var mikil dreifing á loðnunni þegar hún gekk eftir suðurströndinni og það eru aðrar göngur á leiðinni, bæði austan að og norðan að. Öll kemur loðnan svo inn til hrygningar á suðvesturhorninu og í Breiðafirði sú ganga sem kemur að norðan,“ segir Björn.

Þroski hrognanna kannaður.
Þroski hrognanna kannaður.

Loðnuhrognin eru eingöngu fryst og stærsti hluti fer á Japansmarkað og aðra markaði í Asíu en líka til Evrópu. Markaðurinn fyrir loðnuhrogn hefur stækkað mjög mikið með stöðugt vaxandi vinsældum japanska eldhússins.

Hrognavinnslan hófst ekki fyrr en um síðustu helgi og það sem af er vertíðinni hefur Ísfélagið tekið á á móti um 7 þúsund tonnum af loðnu til hrognavinnslu. Áður en hrognavinnslan hófst höfðu verið fryst á fjórða tug þúsunda tonna af loðnu hjá fyrirtækinu.

Viðbótin kom seint

„Viðbótin frá Hafró kom í seinna lagi og menn höfðu skipulagt sig út frá því sem áður hafði verið gefið út. Þegar viðbótin kom var allt í einu nóg til af kvóta en stutt eftir af vertíð. Þetta er eltingarleikur við tímann.“

Björn segir ómögulegt að skjóta á verðmæti frystra loðnuhrogna því verðið ráðist alfarið af því hversu mikið magn verður framleitt og stöðu á mörkuðum. Gríðarlegar sveiflur séu á þessum afurðum og markaðurinn síkvikur.

Vinnslan hjá Ísfélaginu er að miklu leyti orðin sjálfvirk. Fyrir u.þ.b. tíu árum voru lagðar lagnir í jörð á milli frystihúss Ísfélagsins og fiskimjölsverksmiðjunnar. Loðnuhrognunum er dælt eftir þeim beinustu leið úr hrognahúsinu við fiskimjölsverksmiðjuna yfir í frystihúsið þar sem hrognunum er pakkað eftir þurrkun. Hausum og afskurði er dælt með öðrum lögnum til baka í fiskmjölsverksmiðjuna þar sem framleitt er lýsi og mjöl. Engu að síður starfa um 60 manns á vöktun við hrognafrystinguna. Auk þess eru starfsmenn þriggja japanskra kaupenda loðnuhrogna á staðnum sem fylgjast grannt með gæðum og vinnslu hráefnisins.

„Núna undanfarið hefur verið að bætast í hópinn hjá okkur flóttamenn frá Úkraínu. Þetta er hörkuduglegur starfskraftur og ánægjulegt að fá þetta fólk til starfa,“ segir Björn.