Hjá útgerðarfyrirtækinu Ganta í Grindavík er áætlað að hefja eigin fiskvinnslu í janúar en jafnvel fyrr ef það verður talið hagkvæmt.

„Formlega planið er að við verðum klárir í janúar en ef gengur betur að græja húsið og koma því af stað þá er hugmyndin hvort það verður eitthvað í verktöku fyrir okkur til þess að geta keyrt prufur af stað,“ segir Hrannar Jón Emilsson, framkvæmdastjóri Ganta í Grindavík.

„Lausfrystibúnaðurinn og það allt er uppsett og klárt í húsinu en restin af vinnslunni er enn ekki til staðar. Þetta yrði þá fram að þeim tíma að við erum búin að koma vélunum og öðru á réttan stað og í rétta funksjón. Þannig að þetta yrði aðeins tímabundið,“ segir Hrannar.

Tíu tonn á viku til að byrja með

Að sögn Hrannars er gert ráð fyrir því að fimm manns starfi við vinnsluna þegar hún fer í gang eftir áramót.

„Þau verða í vinnu við að flaka og léttsalta og lausfrysta. Þá verða tekin inn tíu tonn á viku af Huldu. Það er uppkeyrsluhugmyndin okkar. Hvað kemur síðan í framhaldi er ekki komið, við erum ekki komnir lengra,“ segir Hrannar.

Eins og kunnugt er er Ganti eitt þriggja fyrirtækja sem urðu til er útgerðarfélaginu Þorbirni var skipt upp. Ganti hefur yfir að ráða togaranum Huldu Björnsdóttur GK, Grindavík Seafood er með togarann Tómas Þorvaldsson GK og Þorbjörn ehf. með Hrafn Sveinbjarnarson GK.

Uppkeyrslan á Huldu gengur vel

Hrannar segir að Hulda hafi verið að skila um það bil sextíu tonnum á viku af þorski. Þannig að ljóst er að aðeins lítill hluti þess fer til vinnslu hjá fyrirtækinu sjálfu til að byrja með. „Hitt fer áfram á markað og er bara í þeirri vinnslu,“ segir hann.

Hulda Björnsdóttir GK í höfn í Grindavík í júlí 2025. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson
Hulda Björnsdóttir GK í höfn í Grindavík í júlí 2025. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson

Í mars síðastliðnum var sagt frá því að Ganti hefði keypt hina nýsmíðuðu Huldu Björnsdóttur fyrir um fjóra milljarða króna. Hrannar segir uppkeyrsluna á skipinu hafa gengið vonum framar. „Það hefur gengið vel að koma henni í fulla drift og núna virðist hún vera komin á mjög góðan stað. Síðustu fjórir túrar hafa verið fullfermistúrar með blandaðan og góðan afla,“ segir hann.

Það er því nóg um að vera í Grindavík. Hrannar bendir sérstaklega á að ferðamenn komi í bæinn í stríðum straumum.  „Ef þú vilt sjá fullt af fólki þá kemur þú á Hafnargötuna og Seljabrautina í Grindavík – þótt bærinn sé náttúrlega tómari en vant er.“