Hugmyndasamkeppni SFS og HR haldin var haldin í síðasta mánuði. Keppnin gengur undir nafninu Vitinn en hét áður Hnakkaþon.

Vitinn er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og hefur verið haldin árlega síðan 2015. Nemendur Háskólans koma sér saman í tveggja til fimm manna liðum sem leysa svo verkefni sem sett er fyrir hópinn.

Verkefnið er alltaf raunverulegar aðstæður hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi og í ár tók Idunn Seafoods þátt í verkefninu. Idunn Seafoods er fyrirtæki í Vestmannaeyjum sem framleiðir niðursoðna þorsklifur. Fyrirtækið er að 51% í eigu dansks fyrirtækis, Amanda Seafoods, og 49% í eigu útgerðarfélaga í Vestmannaeyjum. Dagur Arnarsson er rekstrarstjóri Idunn Seafoods.

Dagur Arnarsson flytur erindi sitt.
Dagur Arnarsson flytur erindi sitt.

„Valdimar Sigurðsson prófessor við viðskipta og hagfræðideild Háskólans í Reykjavík setti verkefnið upp með aðstoð frá mér. En verkefnið bar yfirskriftina: Byggja upp vörumerki Idunn Seafoods fyrir unga bandaríska neytendur,“ segir Dagur í samtali við vef Vinnslustöðvarinnar.

Mettþátttaka

Krakkarnir höfðu þrjá daga að leysa verkefnið og kynna það fyrir dómnefnd sem skipuð var Valdimari Sigurðssyni, dr. Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur, deildarforseta félagsvísindasviðs Háskóla Reykjavíkur, Erin Sawyer, viðskiptastjóra hjá bandaríska sendiráðinu, Haraldi Haraldssyni, sölu og markaðssjóra Icelandair Cargo, Birtu Karen Tryggvadóttur, hagfræðing hjá samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og svo Degi Arnarssyni.

Dagur segir að níu hópar hafi tekið þátt í verkefninu sem er metþátttaka. „Hóparnir skiluðu allir góðum og metnaðarfullum verkefnum sem gerði dómnefndinni mjög erfitt fyrir þar sem þau voru búin að greina Idunn Seafoods, bandaríska markaðinn og koma með hugmyndir af því hvernig hægt sé að fá unga bandaríska neytendur til að velja þorsklifur.

Góð þátttaka var í Vitanum sem HR og SFS stóðu fyrir.
Góð þátttaka var í Vitanum sem HR og SFS stóðu fyrir.


Það er klárt að Idunn mun geta nýtt sér margt af því sem fram kom í þessu verkefni þar sem margar góðar ábendingar komu fram og var aðdáunarvert að sjá hve vel verkefnin eru unnin hjá nemendunum,“ segir Dagur.

Laxarnir unnu

Sigurliðið í ár var liðið Laxarnir sem samanstendur af þeim Hrafni Inga Agnarssyni, Lísu Ólafsdóttur, Sólveigu Sigurðardóttur og Telmu Rún Eðvaldsdóttur. Allir þessir nemendur stunda nám í BSc í rekstarhagfræði.

Þess má geta að sigurliðið fékk í verðlaun ferð á sjávarútvegssýninguna Seafood Expo North America í Boston. Fleiri myndir frá keppninni má sjá hér að neðan.