Laxar, hópur nemenda í rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík, stóð uppi sem sigurvegari í Vitanum, nýsköpunarsamkeppni sem HR og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, standa fyrir á hverju ári. Alls tóku níu hópar þátt í að leysa verkefnið sem að þessu sinni fólst í því leggja fram hugmyndir sem gætu stuðlað að því að selja niðursoðna þorskalifur frá fyrirtækinu Iðunni Seafoods í Vestmannaeyjum í Bandaríkjunum.
Iðunn Seafoods var stofnað í Vestmannaeyjum 2016 og sérhæfir sig í framleiðslu á hágæðaafurðum úr þorsklifur sem landað er í Eyjum. Iðunn hreinsar, sker og reykir ferska þorskalifur og framleiðsluvaran er án nokkurra aukaefna. Danska fyrirtækið Amanda Seafoods var meirihlutaeiganda á móti vestmannaeyskum útgerðarfélögum en hefur nú selt sig út úr fyrirtækinu. Iðunn Seafoods vantaði skýran leiðarvísi og sterka vörumerkjavitund neytenda á hinum gríðarstóra og samkeppnishraða Bandaríkjamarkaði.
„Verkefnið fólst í því að markaðssetja þorskalifur Iðunnar Seafoods á bandarískum markaði. Við gerðum það ásamt níu öðrum teymum og það teymi sem leysti það best að mati stjórnenda Iðunnar Seafoods stóð uppi sem sigurvegi,“ segir Thelma Rún Eðvaldsdóttir, liðsmaður Laxa.
Ofurfæða í stað lýsis og vítamína
Við teyminu blasti það verkefni að gera vöruna meira spennandi í augum neytenda og leggja þar með áherslu á innihald hennar og hollustu. Um var að ræða vöru í niðursuðudós og segir Telma almennt viðhorf vera það að líta niður á slíka matvöru. Framleiðendurnir stóðu frammi fyrir því vandamáli að neytendum fannst varan almennt ekki mjög spennandi og vildu breyta viðhorfinu til vörunnar.
„Við fórum þá leið að líta á þorskalifrina sem þá ofurfæðu sem hún er. Neytendur eiga að geta litið á hana sem gómsætt val á móti lýsi eða vítamíntöflum. Þorskalifrin er stútfull af næringarefnum og er nokkurs konar orkuskot inn í daginn. Þetta var okkar nálgun sem við tókum svo alla leið með því að hanna umbúðir um vöruna með upplýsingum um næringarinnihald og gerum vöruna þannig meira aðlaðandi í huga neytenda,“ segir Telma.

Hún segir að það hafi verið leiðarstefið í hugmyndavinnu hópsins að í raun væri ekki verið að selja matvöru heldur ætti að skilgreina vöruna inn á nýjan markað sem er markaður fyrir ofurfæðu sem er að ryðja sér til rúms víða um heim. „Það er herferð í gangi á samfélagsmiðlum eins og TikTok og Instagram þar sem áhrifavaldar eru að hætta að taka inn hefðbundin vítamín og vilja fá þau beint úr fæðunni. Þetta er nákvæmlega sá markaður sem Iðunn Seafoods á að stefna inn á,“ segir Telma.
Keppnin stóð yfir í tvo daga í húsakynnum HR og því lítill tími til stefnu til að finna lausn á vandamálinu og skila kynningu á lausninni. Framleiðandinn, Iðunn Seafoods lagði mat á hvaða lausn væri best og honum er frjálst að nota allar þær hugmyndir sem komu fram í samkeppninni til markaðssetningar á sinni vöru. Í verðlaun fengu liðsmanna Laxa flug og aðgangsmiða að sjávarútvegssýningunni Sea Food Expo í Boston sem verður í mars næstkomandi.