Jón Steinar Sæmundsson, yfirverkstjóri hjá Vísi hf. í Grindavík, er einn þeirra Grindvíkinga sem hafa staðið frammi fyrir stórum, tilvistarlegum spurningum í kjölfar náttúruhamfaranna. Hann skrifar á Facebook og veltir fyrir sér hve miklu megi kosta til við að bjarga og byggja upp Grindavík.
„Grindavíkurbær, með höfnina sem sína megin lífæð ásamt stórauknum tekjum af ferðaþjónustu sem hefur stóraukist á undanförnum árum, er þjóðhagslega mikilvægur.
Grindavíkurhöfn er með stærstu höfnum landsins þegar kemur að lönduðum bolfiskafla á ári hverju.
Ég gæti trúað að Grindavík hafi verið með á bilinu 15-20% (skot í blindni) af heildarútflutningstekjum sjávarútvegs árlega fyrir hamfarirnar.
Tekjur af afleiddum störfum og þjónustu við sjávarútveginn í Grindavík eru gríðarlegar.
Bláa Lónið, einn vinsælasti ferðamannastaður á Íslandi dregur að sér hundruð þúsunda gesta ár hvert. Bláa Lónið hefur sjálft mjög miklar tekjur, en það hefur einnig víðtæk áhrif á efnahag Grindavíkur í gegnum afleidda þjónustu eins og veitingastaði, gistiheimili og aðra ferðaþjónustu.
Að ákveða hvað er ásættanlegur kostnaður til að verja Grindavík frá eyðileggingu er eflaust flókið mál og fer eftir hinum ýmsu þáttum eins og;
Bókhaldslegi þátturinn
Hversu mikið er fjárfestingatap fyrirtækja ef bænum er ekki bjargað?� Hversu mikill yrði kostnaður ríkisins í formi hinna ýmsu bóta sem gætu komið til ef bænum verður ekki bjargað? Þar gætu komið til skaðabætur til fyrirtækja og jafnvel bæjarins. Atvinnuleysisbætur munu koma til af miklum þunga.
Samfélagslegi þátturinn
Auk hins fjáhagslega taps er ekki síður mikilvægt að horfa til og huga að hinu samfélagslega tapi sem yrði ekki síður gríðarlegt ef bænum verður ekki bjargað.
Í dag er þetta tap þegar orðið stórt en alls ekki óafturkræft með endurheimt íbúanna sem tekur sitt stæsta viðmið af því hversu skjótt verður ráðist í og af hversu miklu afli verður ráðist í viðgerðir á bænum.
Óvissuþátturinn
Þar er hún móðir náttúra í aðalhlutverki og getur sett allar kostnaðaráætlanir og plön úr skorðum vegna síendurtekinna atburða.
Það ætti engum að dyljast það hversu þjóðhagslega mikilvægur Nafli alheimsins Grindavík er.
Miðað við það efnahagslega tap sem myndi hljótast af eyðileggingu bæjarins má segja að verndun og uppbygging hans sé ásættanleg fjárfesting og hvergi nærri komið að þolmörkum í þeim efnum.“