Þrír nemendur Fisktækniskóla Íslands í Grindavík fengu 300 þúsund króna styrk úr menntasjóði Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, IceFish, þetta árið. Þetta eru þau Kristín Pétursdóttir, sem leggur stund á nám í fiskeldi, Hreinn Óttar Guðlaugsson, sem leggur stund á nám í Marel-fisktækni. og Dominique Baring, sem leggur stund á nám í gæðastjórnun og fiskeldi.

„Þessi skóli hefur veitt mér mikinn stuðning í gegnum öll þessi ár, og nú fæ ég styrk til að halda áfram námi,“ segir Kristín Pétursdóttir. Hún er verkstjóri í vinnslunni hjá Matorku, litlu fiskeldisfyrirtæki í Grindavík. Hún hefur sótt nám í Fisktækniskólanum frá byrjun, fór fyrst í fisktækni og síðan í gæðastjórnun og er núna í fiskeldisnámi. „Maður lærir alltaf eitthvað nýtt. Vonandi get ég með þessu námi kannski klifrað aðeins hærra í fyrirtækinu.“

Trúði varla eigin eyrum

Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari Fisktækniskóla Grindavíkur, flutti stutt ávarp við þetta tilefni og sagðist varla hafa trúað eigin eyrum þegar haft var samband við hann fyrir nokkrum árum og honum tilkynnt að forsvarsmenn Íslensku sjávarútvegssýningarinnar hafi ákveðið að styrkja nemendur skólans.

Forsvarsmenn sýningarinnar segja að í kjölfar sýningarinnar árið 2014 hafi þeir gert sér grein fyrir nauðsyn þess að fjárfesta í framtíð sjávarútvegsins á Íslandi og settu á stofn menntasjóð til að veita námsstyrki til efnilegra nemenda innan geirans.

Traustsyfirlýsing

„Styrkirnir eru ekki aðeins sterk traustyfirlýsing á starfi skólans, heldur einnig viðurkenning á mikilvægi menntunar og þjálfunar í greininni. Þeir eru sömuleiðis hvatning fyrir ungt fólk og fullorðna til að feta þessa braut og hafa mikla þýðingu fyrir nemendur okkar,“ sagði Ólafur Jón.

Þau Kristín, Hreinn Óttar og Dominique sögðu öll að styrkirnir kæmu sér vel og væru hvatning til þess að halda áfram í námi.

Íslenska sjávarútvegssýningin, IceFish, var fyrst haldin árið 1984 og hefur allt frá þeim tíma verið í fararbroddi sjávarútvegssýninga á norðurslóðum. Næsta sýning verður haldin 18.-20. september 2024 og fagnar þá 40 ára afmæli.