Hvalveiðibátar Hvals hf., Hvalur 8 og Hvalur 9, héldu til veiða um miðjan dag í gær. Eru því hvalveiðar hafnar að nýju eftir nokkurt hlé en ekkert stórhveli hefur verið veitt frá því sumarið 2018.
Hafrannsóknastofnun ráðleggur að árlegar veiðar á langreyði á tímabilinu 2018-2025 verði ekki meiri en 161 dýr. Leyfilegt er að flytja hluta af óveiddum kvóta fyrra árs til veiðitímabilsins á eftir, og heimildir því til að veiða tæplega 200 dýr í sumar þó ekki sé gert ráð fyrir að þær verði nýttar til fulls.
Alls voru veiddar 146 langreyðar á vertíðinni 2018, eða síðast þegar Hvalur hf. stundaði veiðar.
Veiðarnar veita fjölda fólks atvinnu; á bátunum tveimur, í hvalstöðinni í Hvalfirði og við vinnslu fyrirtækisins í Hafnarfirði. Er um 150 manns að ræða sem koma að veiðum og vinnslu.
Eins og rannsóknir hafa sýnt þá hefur langreyði fjölgað jafnt og þétt við Ísland frá upphafi hvalatalninga árið 1987, og telur stofninn nokkra tugi þúsunda dýra, eða rúmlega 36.000 dýr. Sá fjöldi dýra sem mælt er með að veiddur sé árlega er langt innan þeirra marka sem almennt er miðað við að tryggi sjálfbærar veiðar úr hvalastofnum, er mat vísindamanna.
Ætla má að veiðarnar muni standa fram í september eða á meðan skotbjart er á miðunum.