„Það gekk mjög vel,“ segir Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki NK sem var í gær á leið til lands úr sínum fyrsta túr á kolmunna suður af Færeyjum í þessari lotu.

Eins og fleiri íslensk skip var Börkur að veiðum syðst í færeysku lögsögunni þangað sem skipið var komið 5. apríl. „Það er búin að vera jöfn og góð veiði síðan við mættum,“ segir Hjörvar.

Um 630 tonna hol af kolmunna hjá Berki NK syðst í færeysku lögsögunni.  MYND/ATLI RÚNAR EYSTEINSSONAtli Rúnar Eysteinsson (2)
Um 630 tonna hol af kolmunna hjá Berki NK syðst í færeysku lögsögunni. MYND/ATLI RÚNAR EYSTEINSSONAtli Rúnar Eysteinsson (2)

Þegar Börkur hóf siglinguna heim á mánudag segir Hjörvar að mikið af fiski hafi verið að koma norður yfir færeysku línuna.

„Þetta er mjög fínn fiskur og það er ekki hægt að segja annað en að þetta byrji allt mjög vel. Það voru allt upp í hundrað tonn á tímann þegar við enduðum túrinn,“ segir Hjörvar.

Aflinn hjá Berki var ríflega 3.200 tonn sem landað var í Neskaupstað í gær.

Geyma kvóta fyrir Íslandsmið

Að sögn Hjörvars komu fyrstu íslensku skipin að þessu sinni á kolmunnamiðin 3. apríl þegar kolmunni kom úr skosku lögsögunni. Á undan Berki kláruðu Svanur RE og Aðalsteinn Jónsson SH.

„Algjör draumur,“ svarar Hjörvar spurður um veðrið á miðunum. „Það má kannski segja samt að það hafi verið helst til gott því það er erfitt að dæla í svona góðu veðri,“ bætir hann við og hlær. Ástæðan sé sú að það verði aðeins of þurrt í pokanum til að dæla. „Það vantar að hreyfa pokann aðeins.“

Varðandi framhaldið segir Hjörvar að haldið verði áfram fram í miðjan maí. „Þá fer hann að verða kominn hérna norður í íslenska lögsögu og þá dreifist hann meira á ætisslóð. Þá verða menn sjálfsagt langt komnir með þá kvóta sem þeir taka í vor. Við tökum stóran hluta af okkar kvóta fram í maí og svo verður eitthvað geymt fram í haustið. Það eru minni kvótar í öðrum tegundum þannig að það er fínt að nota tímann og taka kolmunnann á haustin í íslenskri lögsögu ef það er í boði.“

Kolmunninn stærsta verkefnið

Þegar kemur fram á haustið er kolmunninn lifrarmeiri og gefur meira lýsi. „Hann er náttúrlega að koma beint í hrygninguna,“ segir Hjörvar. Hann bendir á að í dag séu mestu veiðiheimildirnar fólgnar í kolmunna. „Þetta er stærsta verkefnið sem við höfum og það er gott að dreifa þessu aðeins yfir árið.“

Á miðunum segir Hjörvar hafa verið færeysk skip og nokkur norsk auk þeirra íslensku. Einnig grænlenska skipið Polar Amaroq. „Rússarnir eru aðeins norðar, þeir fara ekki inn á þetta svokallaða gráa svæði. Í þessum stríðsrekstri sínum þá hafa þeir einhvern veginn verið hraktir þaðan út. Þeir eru að minnsta kosti ekki að standa í neinum deilum út af því,“ segir hann.

Sem fyrr segir heldur Börkur aftur á kolmunnamiðin og var gert ráð fyrir að látið yrði úr höfn í hádeginu í dag.