Sjómannadagsráð er rótgróin íslensk stofnun sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1937. Það var stofnað af einstaklingum sem var umhugað að skipa stétt sjómanna verðugan sess í íslensku þjóðlífi með baráttu fyrir því að innleiddur yrði sérstakur frídagur sjómanna, sjómannadagurinn, sem var í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur árið 1938.

Í öndverðu var í fararbroddi stofnunar Sjómannadagsráðs Henry Hálfdánarson loftskeytamaður og fleiri sjómenn.

Aríel Pétursson sjóliðsforingi tók við sem formaður ráðsins af Hálfdáni Henryssyni, syni fyrsta formannsins, sem lét af störfum 1. september sl.

„Forgöngumenn stofnunar Sjómannadagsráðs efndu til fjáröflunar til þess að halda sjómannadaginn hátíðlegan. Þeir nutu mikillar velvildar og vildu nýta meðbyrinn til annarra þarfra verka í þágu sjómanna. Þeir nýttu sér það hve landsmenn voru tilbúnir að leggja sjómönnum lið til þess leysa annað og veigameira vandamál sem beið þeirra sjómanna sem voru að hætta til sjós fyrir aldurssakir eða eftir slys. Á þessum tíma var ekkert velferðarkerfi til sem hélt utan um sjómenn þegar þeir komu í land. Meðbyrinn var nýttur til þess að reisa dvalarheimili aldraðra sjómanna, maka þeirra og ekkjur og búa þeim áhyggjulaust ævikvöld,“ segir Aríel.

Engin arðsemiskrafa

Arðsemiskrafan til Sjómannadagsráðs er engin og enginn hagnast á starfseminni. Að baki ráðinu standa Félag skipstjórnarmanna, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannafélag Íslands. Aríel segir að gullegg Sjómannadagsráðs sé Happdrætti DAS og án þess væri öldrunarþjónusta á Íslandi ekki á þeim stað sem hún er núna. Að núvirði hefur happdrættið skilað Sjómannadagsráði 8 milljörðum kr. til uppbyggingar og viðhaldsverkefna Hrafnistuheimilanna frá 1954. Á sama tíma hefur það skilað 27 milljörðum kr. í vinninga til miðaeigenda.

Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs. Mynd/Hreinn Magnússon
Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs. Mynd/Hreinn Magnússon

Fyrsta heimilið sem reis var Hrafnista við Laugarásinn í Reykjavík árið 1957. Aríel segir að menn hafi verið mjög hugmyndaríkir í fjáröflun til þessa verks. Til að mynda voru haldnar sýningar á furðufiskum, fluttir voru inn apar sem sýndir voru vestur í Örfirisey, settar voru upp kabarettsýningar og sterkur þáttur í fjáröflunarstarfseminni var stofnun Laugarásbíós. Þegar mest var bjuggu um 450 manns á Hrafnistu í Laugarási og margir saman í herbergi en nú hefur það breyst í hjúkrunarheimili þar sem hver og einn er með sitt herbergi og salernisaðstöðu.

„Sjómannadagsráð hefur ávallt verið framsýnt í þessu stóra hugsjónarverkefni og svarað eftirspurn sem stjórnvöld höfðu ekki svarað. Strax upp úr 1980 vildi það brúa bilið milli sjálfstæðrar búsetu og hjúkrunarheimila með því að byggja lítil raðhús fyrir aldraða í Naustahlein og Boðahlein við Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem aldraði gátu rofið félagslega einangrun sína með því að nýta þjónustu sem veitt er í þjónustumiðstöðvunum.“

Eftir aldamótin stofnaði Sjómannadagsráð leigufélagið Naustavör sem leigir út íbúðir til aldraðra. Alls á félagið 260 íbúðir sem langflestar eru tengdar þjónustumiðstöðvum þar sem leigutakar njóta matarþjónustu og viðburða af ýmsu tagi.

Í 84 ár hefur Sjómannadagsráð staðið að hátíðarhöldum á sjálfan sjómannadaginn, nú í samstarfi við Brim og Faxaflóahafnir, og stór liður í honum er þegar sjómenn eru heiðraðir fyrir sín störf. Athöfnin verður að þessu sinni í Hörpu kl. 14 á sjómannadag.