Fyrir sjómannadaginn árið 1947 komu hingað til lands tíu apar frá dýragarðinum í Edinborg. Tilefnið var dýrasýning sem haldinn var í Örfirisey. Einnig átti að fá til landsins ísbirni frá Ameríku og síðan áttu að þar vera til sýnis bæði sæljón og selir, ýmsar fisktegundir og fuglar á borð við krumma, fálka og smyril.

Í Alþýðublaðinu eru apakettirnir sagðir vera bráðskemmtilegir, en „nokkuð hrekkjóttir og meinþjófóttir. Til dæmis týndu þessir heiðursgestir allt upp úr vösum þeirra, sem fóru um borð til að taka á móti þeim.”

Sjómannadagsráð fékk eyjuna til umráða yfir sumarið og var hún girt af, en þangað lá þá einungis mjór varnargarður, 2,5 metrar að breidd. Smíðuð voru búr fyrir apana og steypt voru lón fyrir seli, sæljón og ísbirni.

Aldrei varð sýningin þó jafn vegleg og að var stefnt. Aldrei fengust leyfi til þess að flytja inn öll þau dýr sem átti að sýna, enda þurftu stjórnvöld að hafa í huga hættu á smitsjúkdómum. Sum dýranna þurfti að senda til baka eftir að búið var að flytja þau til landsins.

Aparnir vöktu lukku

Aparnir komu þó og vöktu mikla lukku, og fleiri merkileg dýr voru þar til sýnis.

Alþýðublaðið greinir frá því 6. júlí að sjö kanarífuglar hafi verið komnir til landsins. Þá sé á sýningunni íslenskur fálki „og er hann mjög matgráðugur og nægir ekki minna en einn hani á dag.”

Einnig voru nokkrir refir á sýningunni, „meðal annars úr Skaftártungum, Hreppum og úr Grindavík.”

Alþýðublaðið segir frá því að páfagaukur hafi átt að koma frá Danmörku og þaðan hafi einnig átt að koma sebradýr, en ekki virðist hafa tekist að fá það til landsins þegar til kom.

Sæljón voru fengin frá Kaliforníu og voru þau sögð dafna mjög vel, en voru „horuð og illa útlítandi er þau komu.

Alþýðublaðið segir selina einnig hafa dafnað vel, „að undanteknum þeim, sem náðist hér í höfninni, honum varð að farga vegna þess að ekki var hægt að koma ofan í hann mjólk.” Aftur á móti hafi skipverjar á Rifsnesinu náð að fanga kóp norður af Horni „og ólu hann um borð hjá sér fyrst, og nú er hann á sýningunni og er gefin mjólk tvisvar á dag og dafnar vel.”

Í Alþýðublaðinu er jafnframt greint frá því að aparnir hafi verið af þremur tegundum, og er einn þeirra sagður vera bæði herskár og vitur.

40 þúsund gestir

Alls sóttu um 40 þúsund manns sýninguna sem hófst á sjómannadaginn og stóð yfir í þrjá mánuði.

„Aðsóknin að dýrasýningunni hefði verið ennþá meiri og gestirnir notið mun meiri ánægju ef veðráttan hefði ekki verið jafn ömurleg og hún var í sumar,“ segir í grein frá sýningarnefnd Sjómannadagsráðs sem birt var í Tímanum 23. ágúst, og ef „ landvistarleyfi hefði fengizt fyrir þau dýr, sem búið var að kaupa og jafnvel flytja til landsins.“

Nokkur umræða varð um velferð dýranna í búrunum á Granda. Sjómannadagsráð sagðist undrandi á því að útvarp og blöð hafi verið notuð til að torvelda sýningarstarfsemina.

„Það er von okkar og trú, að þessi sýning megi verða undanboði þess, að hér rísi upp fjölbreytilegur dýragarður í framtíðinni,“ segir í grein frá sýningarnefnd Sjómannadagsráðs sem birtist í Tímanum 23. ágúst, „en til þess að svo geti orðið, verður að kveða niður allt fávíslegt hjal um að ljótt sé að geyma dýr í búrum, og að smithætta stafi frá svo vel geymdum dýrum.“

Sitt sýndist hverjum

Ráðið segir að góðhjartaðar konur, „sem hafa yfir frelsisljóð Hannesar Hafstein og vilja heimfæra það upp á vel alin og vel hirt dýr í dýragarði, ættu að minnast þess, að mjólkurkýrin, óskabarn allra góðra kvenna, er tjóðruð á sama básinn níu mánuði á hverju ári og unir þar mæta vel hag sínum og enginn vorkennir henni.

Óskandi væri að hinir íslenzku dýravinir reyndu að vekja áhuga fólks fyrir dýrunum og væru til fyrirmyndar í að umgangast þau, en okkar reynsla af sýningunni er sú, að á því sé nokkur misbrestur hjá sumum sýningargestunum, og þá helzt þeim, sem allt hafa á hornum sér.”

Sitt sýndist þó hverjum og í lesendabréfi í Þjóðviljanum er sýningin sögð vera til skammar, frágangurinn sagður flausturslegur og handarbaksháttur á öllu: „Þarna eru fullorðnir látnir borga 10 krónur og börn 5 krónur fyrir að horfa á örfá dýr og fugla í umhverfi, sem ber vott um íslenskan subbuhátt á hæsta stigi.”

Fjáröflun

Yfirlýstur tilgangur dýrasýningarinnar var þó einkum sá að hún átti að vera fjáröflunarleið fyrir Dvalarheimili aldraðra sjómanna. Samkvæmt reikningum sjómannadagsráðs, sem birtir voru í Sjómannadagsblaðinu árið eftir, nam ágóðinn af sýningunni í peningum 27.299,81 krónum.

Fjölmargar gjafir bárust til Dvalarheimilisins þetta sama ár, eða samtals 226 þúsund krónur frá einstaklingum og fyrirtækjum, skipsáhöfnum og félögum. Þar á meðal bárust 70 þúsund krónur frá manni sem vildi ekki láta nafns síns getið en notaði dulnefnið Þarabútur, og var það stærsta einstaka gjöfin - það árið að minnsta kosti.

Umfjöllunin birtist upphaflega í sjómannadagsblaði Fiskifrétta.